Rauðsprettuflök í ofni
Það sem til þarf er:
f. 4
2 rauðsrettuflök, ca. 400 gr. hvort
Krydd lífsins frá Pottagöldrum
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
2 hvítlauksrif, marin
1/4 rauðlaukur, smátt saxaður
1/2 búnt steinselja, fínt saxað
Nokkrir kirsuberjatómatar skornir í 2-3 bita
2 dags gamlar brauðsneiðar, mylja gróft
Ólífuolía, til að drussa yfir brauðið og nokkrar litlar smjörklípur
Meðlæti:
Kryddsmjör
1 sítróna, skorin í báta
Salat, að eigin vali
Kartöflur, ef þú vilt
Rauðspretta er svo fínlegur og góður fiskur. Ég hreinsa alltaf roðið vel og borða það líka, þú það? Ef þú hefur ekki prófað það mæli ég með að þú prófir einu sinni :-)
Svona geri ég:
Ofninn er hitaður í 200°C. Smurður bökunarpappír er settur á bökunarplötu. Sítrónusafi er kreistur yfir roðið og það skafið vel með bakinu á hníf og þerrað. Því er síðan snúið við og það beinhreinsað. Flakið er lagt á plötuna og kryddað með Kryddi lífsins, salti og pipar. Hvítlauk, lauk, steinseljuog tómötum blandað í skál og síðan er blöndunni jafnað yfir flökin. Brauðmylsnunni er dreift yfir allt og í lokin er nokkrum dropum af ólífu olíu drussað yfir og nokkrum smjörklípum. Bakað í 20 mín., eða þar til fiskurinn er eldaður (ekki þurr) og bauðlokið orðið gyllt og stökkt. Borinn fram með sítrónubátum og kryddsmjöri.