Áramót 2019

Það sem til þarf er:

F. 8

Í marengs hreiðrin:

300 gr. sykur

150 gr. eggjahvítur, (ca. 5 egg)

Grænn matarlitur (paste)

Í granatepla sorbetinn:

Ca. 1 L

125 gr. sykur

1 L ferskur nýreistur, granateplasafi, ca. 5-6 granatepli

1-2 msk. granatepla síróp (fæst í Istanbul Market)

2 blöð matarlím

2 msk. Vodka (má sleppa)

Í Limoncello rjómann:

3 dl rjómi, þeyttur

2 msk. Limoncello

Til að skreyta með:

Gyllt matarglimmer

Gylltar sykurstjörnur

Nokkur granateplafræ

Borið fram með:

Frosið Limoncello í glasi

Ég bauð fjölskuldunni upp á þennan hátíðlega og gullfallega eftirrétt á Gamlárskvöld 2019. Eins og venjulega missti ég mig i skrauti og glimmer, en það er bara svo skemmtilega viðeigandi. Mér finnst að síðasti eftirréttur ársins eigi að vera eins og falleg, risa stór raketta sem springur á næturhimninum. Glitrandi gull og stjörnuljós á disknum,sem er bæði fyrir augað og bragðlaukana. Þessi svíkur sko ekki, mjúkseigur marengs, með dýrðlegum Limocello rjóma og ferskum ísköldum granatepla sorbet, sem dansar á tungunni. Toppurinn er, að það er hægt að búa til marengsinn og sorbetinn nokkrum dögum áður, jafnvel viku. Svo ekki láta hendur fallast, þetta er ekkert mál og þú verður ekki svikin af þessum desert. Gleðilegt ár!!!!

Svona gerði ég:

Marengsinn: Ofninn er hitaður í 200°C. Bökunarpappír er settur á bökunarplötu og sykrinum hellt á pappírinn og hann hitaður í 5 mín., eða þar til hann byrjar aðeins að verða gylltur (má ekki bráðna). Tekinn úr ofninum og hitinn lækkaður í 110°C. Vigtaðar eggjahvíturnar eru settar í hrærivélaskál og þeyttar á lágum hraða, þar til þær byrja að þeytast og verða loftmiklar. Þá er hraðinn aukinn á hrærivélinni og þeytt áfram þar til stífir toppar myndast. Heitum sykrinum er bætt út í hvíturnar, einni matskeið í einu, passa að marengsinn stífni á milli þess sem sykrinum er bætt út í. Þegar allur sykurinn er kominn út í, er þeytt áfram í 5-7 mín., þar til marengsinn er mjúkur og glansandi. Bökunarpappír er settur á plötu, það er gott að festa hann niður með smá marengs doppu, á milli plötu og pappírs. Til að gera marengsinn eins og marmara, er 4-5 örfínum línum sprautað inn í rjómasprautupoka. Gott er að láta pokann standa inn í stórri könnu og síðan er eggjahvítumassinn settur varlega í pokann. 1.5 cm gat er klippt á endann, eða stútur settur á fjölnotapoka og marengsinn sprautaður í 8 hreiður. Restinni er síðan sprautað í toppa og þeir bakaðir með. Bakað í 45 mín., eða þar til hægt er að lyfta hreiðrunum auðveldlega af pappírnum, látin kólna alveg. Geymast í viku í lokuðu boxi með pappír á milli laga.

Sorbetinn: Nauðsynlegt að nota hanska og gamalt bretti, granateplasafinn litar allt! Fræin er tekin úr granateplunum og sett í blandara á fullum hraða í 1-2 mín. Hellt í sigti og safinn pressaður í gegn í skál. 2.5 dl af safanum og sykurinn er settur í pott og hitað á lágum hita þar til sykurinn leysist upp. Matarlímið er mýkt upp í skál af köldu vatni. Blöðunum er lyft upp úr vatninu og sett í pottinn. Potturinn er tekinn af hitanum og restinni af safanum og granateplasírópinu og Vodkanu (ef þú notar það) bætt út í, látið kólna og síðan kælt vel. Hellt í ísgerðarvél og látið hrærast í henni þar til sorbetinn þykknar verulega, orðinn eins og þykk slydda. Þá er hann settur í plastbox og plastfilma sett beint ofan á ísinn og honum stungið í frystinn og geymdur, þar til á að nota hann. Hægt að gera þetta 1-2 vikum áður. Þegar á að nota sorbetinn, er gott að stinga boxinu með honum í ísskápinn í ca. 15 mín., áður en þú skefur hann í kúlur.

Limoncello rjóminn: Rjóminn er þeyttur með líkjörnum og hann geymdur í ísskáp þar til á að setja desertinn saman.

Þegar stundin er komin til að setja allt saman, er eitt marengshreiður sett á hvern disk, nokkrar msk. af rjóma settar ofan í hreiðrið ásamt einni kúlu af granateplasorbet og toppi af marengs ofan a kúluna. Svo er bara að skreyta eins og þér finnst fallegt og hátíðlegt. Frosnu Limoncello er hellt í glösin og eftirrétturinn borinn á borð og þú nýtur hans með fólkinu þínu. Gleðilegt ár!!

Verði þér að góðu :-)

ATH. Ef þú átt ekki ísgerðarvél, þá er það ekkert mál, þú hellir ískaldri safablöndunni í rúmgott plastbox og stingur því frystinn i 1 klst. Þá tekur þú boxið út og hrærir í honum með gaffli og stingur því aftur í ísskápinn í 1 klst. Svo endurtekur þú þetta þar til ísinn er orðin eins og þykk slydda, kannski í 4-5 skipti í allt. Svo fylgir þú uppskriftinni að öðru leyti.

Marengs

Granatepla sorbet

Gómsætur glamúr