Gratíneraðar fylltar pönnsur í rjómasósu

Það sem til þarf er:

F. 4-6

Í pönnukökurnar:

110 gr. hveiti, sigtað

1/4 tsk. salt

1 egg + 1 eggjarauða

2 1/2 - 3 dl. mjólk

50 gr. smjör, brætt

Olía til að steikja pönnsurnar í

Í Béchamel sósuna:

1 litill laukur

4 negulnaglar

6 dl mjólk

1/2 tsk. brotin svört piparkorn

3 lárviðarlauf

50 gr. smjör

35 gr. hveiti

1/2 dl. rjómi

Rifin fersk múskathneta

Í fyllinguna:

1 búnt ferskur aspas, snyrtur

8-10 stórar sneiðar góð skinka

Ofan á:

30 gr. rifinn Parmesan ostur

Það er alltaf tilhlökkunarefni að finna eitthvað gúmmelaði til að búa til um helgina.  Hér eru á ferðinni dásamlegar pönnsur, fylltar með ferskum aspas og dásamlegri skinku, löðrandi í rjómasósu og svo gratíneraðar með osti.  Erum við að tala saman eða hvað..? 😋 Hægt að undirbúa fyrirfram að hluta.

Svona geri ég:

Pönnukökurnar:  Hveitið er sigtað í skálina á matvinnsluvél, salti bætt út í, ásamt eggi, eggjarauðu, mjólk og bræddu smjöri. Blandað saman í kekkjalaust deig. Ef þú gerir deigið í höndunum, er þurrefnunum blandað saman, síðan eru eggið, eggjarauðan og brædda smjörið er þeytt upp með mjólkinni og síðan hrært út í þurrefnin í kekkjalaust deig.  Deiginu leifa að standa og jafna sig í 30 mín.  Þegar deigið er tilbúið er pönnukökupanna hituð og smurð með olíu og pönnukökurnar steiktar, frekar þunnar,  í ca. 1 mín. á hvorri hlið, staflað á disk og geymdar.

Béchamel sósan:  Laukurinn er skorinn í fjóra hluta og negulnagla stungið í hvern fjórðung.  Þeim er stungið í pott ásamt lárviðarlaufunum og mulda piparnum og mjólkinni,  Suðan látin koma upp, tekið af hitanum og geymt með pönnukökudeiginu í 30 mín.  Síðan er mjólkin hituð aftur, síuð og stóra kryddinu hent.  Smjörið er brætt í miðlungs stórum potti, hveitinu er hrært út í og það látið malla rólega í 1-2 mín.  Heitri mjólkinni er hrært varlega út í, hrært í á meðan.  Suðan látin koma upp og sósan látin þykkna á rólegri suðu og krydduð til með salti, pipar og rifinni múskathnetu, haldið heitri.  

Fyllingin:   Ofninn er hitaður í 190°C.  Suðan er látin koma upp á söltu vatni í rúmgóðum potti.  Trénuðu endarnir eru skornir af aspasinum og hann soðinn í 3 mín., tekinn upp úr og  kældur undir rennandi vatni og þerraður.   Pönnukaka er lögð á borðið og ein skinkusneið lögð ofan á og 2-3 aspas stönglar ofan á skinkuna og svo rúllað upp.  Eldfast fat er smurt að innan og rúllurnar lagðar í einfalt lag í fatið.  Stungið í ofninn og bakað í 15 mín.  þar til þær eru gylltar og  farnar að verða svolítið stökkar.  Þá er grillið sett í gang í ofninum, fatið er tekið út og sósunni hellt yfir rúllurnar en samt ekki alveg yfir  aspasendana.  Ostinum er dreift yfir sósuna og grillað þar til osturinn er gylltur og sósan búbblandi, borið sjóðandi heitt á borðið.

Verði þér að góðu :-)

Pönnukökurnar 

Béchamel sósan 

Fyllingin 

Geggjað um helgina 🥞🍴☕