Djúpsteiktur aspas með chili jógúrt-majó

Það sem til þarf er:

F. 4 sem smáréttur eða forréttur

25-30 stk. ferskur grænn aspas

1 L sólblómaolía

Í deigið:

100 gr. hveiti

1 sléttfull tsk. lyftiduft

1 dl vatn

5 ísmolar

Í chili jógúrt-mæjóið:

1 1/2 dl majónes

1 1/2 dl hrein jógúrt

1 rautt chili, fræhreinsað og fín saxað

1 búnt ferskt kóríander

1/2 tsk. hunang

Safinn úr 1/2 lime

Mér finnst ferskur aspas góður, hvernig sem hann er borinn á borð fyrir mig. Hrár í pestói, steiktur, grillaður, soðinn, bakaður, með einhverju eða einn og sér. Ég er með nokkrar uppskriftir á síðunni af steiktum eða grilluðum aspas með geggjuðum ídýfum. Mér finnst skemmtilegt að bjóða uppá hann sem forrétt, eða smárétt með góðum drykk í góðra vina hóp. Chili jógúrt-mæjóið er rosagott, smá sítrus með chili sparki..... namm!!

Svona geri ég:

Allt hráefni í ídýfuna er sett í skál og hrært vel saman. Geymd í ísskáp þar til rétturinn er borinn á borð. Aspasinn er þveginn og þerraður vel, 1-2 cm skornir neðan af honum. Öllu í deigið, nema ísmolunum er blandað sama í víða skál og hrært saman þar til deigið er kekkjalaust. Ísmolunum er blandað út í deigið og þeir látnir standa í deiginu í um 5 mín., síðan eru þeir veiddir upp úr og hent. Olían er hituð í víðum potti. Þegar hún er vel heit eru aspasstilkarnir dregnir í gegnum deigið einn í einu og steiktir 2-3 í einu í um 1/2 mín., þar til þeir eru gylltir og deigið utan á þeim stökkt. Þá eru þeir veiddir upp úr olíunni með góðum spaða eða löngum töngum og látnir á eldhúspappír til að auka olían renni af þeim. Aspasstilkarnir eru settir á fallegan disk og grófu salti stráð yfir þá. Bornir á borð með dýfunni og kældu hvítvíni eða glasi af Prosecco.

Verði þér að góðu :-)

Partý mönsj 🌱🌿