Bestu kartöflur í heimi

Það sem til þarf er:

F. 8

16 meðalstórar, mjölmiklar kartöflur

2 msk. hveiti

140 gr. anda/gæsa fita

3 msk. grænmetisolía

Búðu þig undir að verða háð þessum kartöflum.... Ég meina það, þær eru þær allra bestu í heimi, þess vegna eru þær tilvaldar á hátíðarboðrið. Steiktar upp úr anda- eða gæsafitu, þess vegna ekki til hversdagsbrúks. Gerðu það fyrir þig og þína, að búa þær til um hátíðirnar, þú sérð ekki eftir því ;-) Ég get ekki eignað mér neinn heiður af þessum gullmolum, þær eru komnar frá Bretlandi og eru mikið notaðar þar sem meðlæti með sunnudagssteikinni, uppskriftin er þaðan. Það eru til margar útgáfur af þessum kartöflum, en þetta er sú sem ég hef notað í gegnum tíðina.

Svona er uppskriftin:

Ofninn er hitaður í 190°C. Kartöflurnar eru skrældar og skornar í tvennt, en í fjóra bita ef þær eru stórar, eða hafa þær heilar, ef þær eru litlar. Settar í pott með söltu köldu vatni svo fljóti yfir þær og suðan látin koma upp. Um leið og suðan kemur upp er klukkan stillt á 2 mín. og látið sjóða. Þá eru þær teknar af hitanum og kartöflunum hellt í sigti, hristar vel til svo ær ýfist aðeins, á meðan þú hellir hveitinu yfir þær og hristir þær vel til. Olían og andafitan er brædd í potti. Stór steikar bakki er gerður klár og bráðinni fitunni er hellt í hann og hann settur í ofninn. Þegar olían er farin að búbbla aðeins, er kartöflunum hellt mjög varlega ofan í heita fituna, velt um í henni og látnar brúnast í henni í um 5 mín., síðan eru þær látnar steikjast í fitunni án þess að hreyfa þær í um 20 mín. Þá er fatið tekið úr ofninum og kartöflunum snúið með spaða, síðan er fatinu stungið í ofninn aftur og steiktar áfram í 20 mín., í viðbót. Siðan er þeim snúið einu sinni enn og stungið í ofninn aftur í aðrar 20 mín. Núna áttu að vera komin með fullkomnar steiktar kartöflur. Bornar á borð með hátíðar matnum þínum.

Verði þér að góðu :-)

OMG 🫶🏻✨