Jóla eplasalat
Það sem til þarf er:
f. 6
4 Jonagold epli, þvegin og kjarnhreinsuð
2 dl rjómi, þeyttur
2 msk. majones
1 ½ msk. sýrður rjómi
Ca. 2 msk. sítrónusafi
1 tsk. sykur
Ég veit ekki hvað eru margar tegundir af eplum til í búðunum, en ég held að úrvalið sé alltaf að aukast. Ég nota Jonagold í salatið, af því að mér finnast þau passlega súr og stíf, en það er um að gera að nota önnur epli t.d. Pink lady, MacKintosh eða jafnvel græn....??? Ég hef þetta einfalda en gómsæta eplasalat, alltaf með jóla gæsinni. Það klikkar ekki að dæturnar eru búnar að klára ALLT úr skálinni þegar kvöldið er á enda. Það er vinsælt hjá þeim að narta í restina úr skálinni þegar líður á kvöldið, gaman að þeim, þessum elskum :-)
Svona geri ég salatið:
Majonesi og sýrðum rjóma er hrært vel saman, sítrónusafa og sykri er hrært samanvið. Það er gott að smakka til á þessu stigi, mér finnst best ef þetta er svolítið súrsætt, þá er þeytta rjómanum hrært útí. Eplin eru þvegin vel og þerruð, kjarnhreinsuð og skorin í meðalstóra bita, þeim er svo hrært varlega útí majó/rjómablönduna. Geymt í ísskáp þar til salatið er borið fram. Best að gera það samdægurs.