Bacon- og spínatbaka með Tindi

Það sem til þarf er:

f. 6

Í fyllinguna:

150 gr. bacon, skorið í bita

1 laukur, fínsaxaður

300 gr. spínat eða spínatkál

4 stór egg + 2 eggjarauður, þeytt

3 dl rjómi

150 gr. Tindur (osturinn :-), rifinn

1/2 búnt fersk steinselja, söxuð

Í botninn:

350 gr. hveiti

100 gr. valhnetur, malaðar fínt í blandara

1/2 tsk. salt

200 gr. kalt smjör skorið í bita

1 eggjarauða

3-4 msk. kalt vatn

Ég er MJÖG hrifin af bökum =D Það er svosem skiljanlegt, hverjum líkar ekki við egg, rjóma og ost. Svo er sett eitthvað gott grænmeti, kjöt og krydd útí. Lungamjúkt fylling römmuð inní stökka deigskel, crisp grænt salat og kannski rautt í glasi, hvað er ekki til að elska :-)? Ég gerði svona böku fyrir okkur Guðjón í sumar og á örugglega eftir að gera hana aftur.

Svona gerum við:

Fyrst er deigið útbúið. Hveiti, valhnetur og salt er sett í blandara og "púlsað" þar til allt er blandað vel saman. Smjörinu er blandað samanvið og "púlsað" þangað til blandan minnir á brauðmylsnu. Þá er eggjarauðunni bætt útí "púlsað" áfram síðan er vatninu blandað smám saman við þangað til deigið rétt loðir saman. Hvolft á hveitistráð borð og hnoðað saman. Formað í hringlaga köku, sem er svo pakkað í matarfilmu og kæld í ísskáp í 15. mín. Ofninn er hitaður í 200°C. Djúpt 23 cm. lausbotna bökuform er smurt að innan. Hveiti er stráð á borðið og deigið flatt út í rúml. 23 cm. köku, með kökukefli. Deigið sett í botninn á forminu og kælt í 10 mín. Smjörpappír er settur ofaná deigbotninn og góður slatti af ósoðnum hrísgrjónum sett ofaná, til að vera farg svo hann lyftist ekki í bakstrinum. Botninn bakaður í 15 mín., þá er pappír og grjón tekið úr og botninn bakaður áfram í 5-10 mín., þar til hann er gylltur. Hitinn á ofnninum er minnkaður í 180°C. Á meðan botninn er að bakast er baconið steikt á pönnu þar til það er stökkt. Baconið er tekið af pönnunni og laukurinn steiktur í baconfeitinni þar til hann er gylltur og mjúkur. Þá er spínatinu bætt á pönnuna og það látið "visna" á pönnunni. Því er svo hellt í stórt sigti og allur vökvi síaður vel frá. Gott að þrýsta á spínatið með bakinu á skeið. Egg, eggja-rauður, rjómi, ostur og steinselja er þeytt saman í könnu og kyddað til með salti og nýmöluðum svörtum pipar. Lauk og spínati er jafnað yfir botninn og baconi dreyft þar ofaná, svo er eggja-rjóma blöndunni hellt yfir. Bakað í 50 mín., þar til bakan er gyllt og fullbökuð. Tekin úr ofninum og kæld í smástund þar til hægt er að taka hana úr forminu og hún kæld lítillega á grind. Frábært að bera bökuna fram með stökku grænu salati og einfaldri dressingu úr ólífu olíu og góðu ediki.

Verði þér að góðu :-)

P.s. Frystist vel og geymist vel í ísskáp í nokkra daga.

Sumardagar 🍃