Austurrískt snitsel

Það sem til þarf er:

F. 3-4

1 stór grísalund, himnuhreinsuð og skorin í  ca. 2 cm sneiðar

50 gr. hveiti

2 egg, létt þeytt

50 gr. brauðrasp

55 gr. fín rifinn Parmesan ostur

1 msk.  fersk steinselja söxuð

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Olía til að steikja úr

Í kapers/ansjósu smjörið:

100 gr. smjör

2 msk. kapers

4 ansjósur

Safinn úr 1 sírtónu

Steikt hvítkál:

1/2 kg. hvítkál

55 gr. smjör

2 skarlottulaukar, fínsaxaðir

1 1/2 dl hvítvínsedik

Við elskum gott snitsel, það þarf að vera barið þunnt, með vel krydduðum stökkum rasphjúp.  Þessi réttur uppfylir allar okkar kröfur. Þegar ég bý til þennan fyrir okkur, er hátíð í bæ. Eins og margir karlmenn, elskar GM snitsel, ég hugsa að hann gæti borðað það í öll mál.......??  Ég er ekki að grínast. Ég er með steikt hvítkál með snitselinu og dásamlega gott kapers/ansjósusmjör.  Ef þú ert ekki vön ansjósum og finnst tilhugsunin um þær ekki aðlaðandi, þá verð ég að segja þér:  Ekki hafa áhyggjur af þeim!  Þær bráðna í smjörið og gefa því ómótstæðilegt djúpt bragð, sem ekkert toppar. Ég lofa uppá æru og trú, það verður ekki fiskibragð af smjörinu.  Endilega prófaðu snitselið og meðlætið, það er æði ;)

Svona geri ég:

Lundin er sinuhreinsuð og skorin í um 2 cm sneiðar.  Það er best að gera það með því að setja örk af bökunarpappír á eldhúsborðið og leggja eina kjötsneið í einu, á pappírinn og setja annað blað ofan á kjötið og berja hverja sneið næfurþunna, með kökukefli.  Hveitið er sett í djúpan disk, eggin eru þeytt í öðrum, síðan er Parmesan osti, raspi og steinselju blandað saman í þriðja diskinn. Þegar búið er að berja allar sneiðarnar, er þeim velt upp úr hveiti, síðan þeyttu eggi og síðast í rasp/parmesan blöndunni.  Olía er hituð á meðalhita á stórri pönnu. Sneiðarnar eru steiktar þar til þær eru gylltar og gegn steiktar, saltað og piprað.  Teknar af pönnunni og haldið heitum í ofninum.  Ekki hreinsa pönnuna, heldur er smjörið brætt á henni og ansjósurnar settar útí það og þær látnar moðna niður í smjörið. Í lkin er kapersinu bættt á pönnuna og sítrónusafinn kreistur yfir, smakkað til með salti og pipar.  

Kálið: Kálið er þvegið og skorið þunnt.  Það er blancerað, (suðan látin koma upp á 1-2 cm af vatni, í potti með loki) í ca. 3 mín., sigtað. Smjörið brætt í pottinum og lauknum og kálinu bætt útí og brúnað í 2-3 mín., edikinu er bætt út í lokin.  Snitselið er tekið úr ofninum og borið á borð með kálinu og smjörinu.  Einn ískaldur er frábær með.

Verði þér að góðu :-)

Svooo gott 🫠