Döðlukaka með heitri karamellusósu

Það sem til þarf er:

Í kökuna:

235 gr. döðlur

1 tsk. matarsódi

120 gr. mjúkt smjör

5 msk. sykur

2 egg

3 dl hveiti

1/2 tsk. salt

1/2 tsk. vanilludropar

1 1/3 tsk. lyftiduft

Í karamellusósuna:

120 gr. smjör

115 gr. púðursykur

1/2 tsk. vanilludropar

1/4 bolli rjómi

Ef ú vilt:

Sjávarsalt flögur

Þessi dásemdarkaka er á öllum bloggum landsins, enda ekki skrítið, þar sem hún er sjúklega góð. Ég varð auðvitað að hend mínum fimmtíu centum í púkkið og set hana hér, ef hún skildi hafa farið fram hjá þér. Ég fékk uppskriftina fyrir mörgum árum, frá henni Lúllu á Ökrum, vinkonu minni hér í Mosfellsbænum, sem er annálaður matgæðingur. Við Lúlla vorum á málaranámskeiði í Myndlistarskólanum hér í bæ MyndMos, en Lúlla kom með eina svona, volga úr ofninum, til að bjóða okkur sem vorum á námskeiðinu, uppá með kaffinu. Þegar ég setti fyrsta bitann upp í mig, kiknaði ég í hnjánum, hún var svooooo góð, lungamjúk með heitri karamellusósu og þeyttum svölum rjóma, OMG þvílík dásemd. Auðvitað bað ég Lúllu um uppskriftina og hef bakað hana mjög oft, öllum sem smakka til mikillar gleði. Takk kæra Lúlla fyrir gleðina. Það ein sem ég hef breytt er að ég bætti svolitlu salti í karamelluna, mér finnst það gefa henni meiri dýpt, en þú getur sleppt því ef þú vilt. Ef þú ert að fara í Pálínuboð og vilt trylla alla á staðnum komdu þá með "stjörnuna" á borðinu og komdu með þessa. Þú verður að prófa hana, bara verður!!!

Svona gerir Lúlla:

Kakan: Ofninn er hitaður í 180°C. Lausbotna 24 cm form, er smurt vel að innan og pappír settur í botninn á því. Döðlurnar eru saxaðar og settar í pott með vatni sem rétt flýtur yfir þær. Suðan er látin koma upp, þá er slökkt undir pottinum og döðlurnar látnar standa í 3 mín., þá er matarsódanum bætt út í pottinn. Smjör og sykur er þeytt létt og ljóst í hrærivél, síðan er einu eggi í einu bætt út í og þeytt vel á milli. Hveiti og vanillu dropum er hrært út í ásamt 1/4 af döðlumaukinu og hrært varlega í. Í lokin er restinni af döðlumaukinu hrært út í. Deiginu er hellt í formið og því stungið í ofninn og bakað í 30-40 mín., eða þar til miðjan er bökuð. Kökunni er hvolft á kökudisk og borin fram með heitri karamellusósu og létt þeyttum rjóma eða ís.

Karamellusósan: Allt sett í pott og látið malla rólega í nokkrar mín., þar til sósan þykknar. Smakkað til með sjávarsalt flögum, ef þú vilt.

Verði þér að góðu :-)

Kakan

Karamellusósan

Stjarnan á borðinu ✨🎉🎇