Rækjur í kampavínskremi

Það sem til þarf er:

F. 4

1/2 kg. smjördeig, mér finnst best að nota Findus plöturnar, stærðin passar vel og deigið er ágætt

Hveiti til að rúlla deiginu út með

2 egg, þeytt

1 1/2 dl kampavín eða freyðivín

1 1/2 dl rjómi

300 gr. risarækja, vel afþýddar og þurrar

2 sítrónur, þvegnar og börkurinn fín rifinn af + safinn úr 1/2 sítrónu

Sjávarsalt

Nýmalaður svartur pipar

Lítið búnt ferskt dill, gróf saxað

Retturinn er hátíðlegur og fallegur á borði, hvort sem það er hátíð eða rómó kvöld hjá ykkur tveim yfir kertaljósi.  Hann er mjög einfaldur, auðvelt að minnka uppskriftina og hægt að útbúa hann að hluta fyrir fram.  Sláðu til og búðu til hátíð hjá ykkur tveim með dýrðlegum mat ;-)

Svona geri ég:

Smjördeigið:  Ofninn er hitaður í 200°C.  Bökunarplata er gerð klár með bökunarpappír.  Eldhúsborðið er stráð með hveiti og smjördeigið rúllað aðeins út, síðan eru plöturnar skornar í tvennt og ferningarnir settir á plötuna.  Plöturnar eru penslaðar með þeyttu eggi, plötunni er stungið í ísskápinn í 20 mín.  Þegar deigið hefur verið kælt er það penslað aftur með eggi og plötunni er síðan stungið í ofninn og ferningarnir bakaðir í um 20 mín., þar til þeir eru vel risnir upp og fallega gylltir.  Settir á grind og látnir kólna.  Ef þú gerir þetta fyrir fram geymast ferningarnir vel í lokuðu boxi í nokkra daga.

Fyllingin:  Kampavíninu er hellt á meðalheita pönnu og það er soðið niður um helming.  Rjómanum er hellt út í, saltað og góður slatti af pipar bætt á pönnuna, þá er sítrónuberki- og safa bætt á pönnuna og látið sjóða þar til sósan þykknar.  Rækjunum er bætt á pönnuna og látið malla varlega í þar til rækjurnar eru orðnar bleikar og gegn soðnar.  Í lokin er dillinu bætt á pönnuna.  Smjördeigs ferningarnir eru klofnir varlega i tvennt með hníf.  Settir á disk og fyllingunni jafnað á milli neðri helminganna, síðan er efri hlutinn lagður varlega ofan á og diskurinn skreyttur með litilli dillgrein og sítrónubáti.  Restin af kampavíninu fer vel með rækunum.

Verði þér að góðu :-)

Rómó og hátíðlegt 🥂💘