Kjúklingalæri með kartöflum, Fetaosti og dilli

Það sem til þarf er:

f. 4

3 msk. ólífu olía

Safi úr 1/2 sítrónu

1 solo hvítlaukur, pressaður

1/2 tsk. þurrkað óreganó

1 kg. kjúklingalæri

ca. 1/2 kg.  kartöflur

100 gr. mulinn Feta kubbur

2 msk. ferskt dill, saxað

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Þessi uppskrift er þyngdar sinnar virði í gulli, þú átt eftir að búa hana til aftur og aftur.  Hún hefur allt, engin fyrirhöfn og dýrðlega góð.  Ég er ekki mikill aðdáandi kjúklingabringunnar, mér finnst hún frekar þurr og óspennandi yfirleitt.  Allt annað mál er með lærin, þau eru svo safarík og bragðmikil.  Í þessari uppskrift eru lærin marineruð í smástund í hvítlauk, sítrónusafa og óreganó.  Svo eru kartöflurnar og lærin bökuð í ofnskúffunni saman. Kartöflurnar drekka í sig kjúklingafituna og verða stökkar og fáránlega góðar.  Þú þarft að prófa!!

Svona geri ég:

2 msk. af olíunni er hellt i skál, ásamt 1 msk. af sítrónusafa hvítlauk og óreganó, 1 tsk. salt og 1/2 tsk. pipar. Lærunum er velt upp úr marineringunni og látin standa í henni í allavega 30 mín., en best ef þú hefur hana í henni í nokkra tíma í ísskápnum.  Ofninn er hitaður í 220°C.  Ofnskúffan er gerð klár, en það er gott að setja bökunarpappír í botninn á henni.  Kartöflurnar eru þvegnar og þerraðar vel, síðan skornar í hæfilega stóra bita.  Þær eru settar á annan helming skúffunnar, velt upp úr restinni af olíunni, salti og pipar.  Lærin eru þerruð og krydduð með smá salti og pipar og raðað á hinn helminginn. Skúffunni er stungið í ofninn og bakað í 15 mín.  Þá er kartöflunum snúið og bakað áfram í 15-25 mín., (fer eftir því hvað lærin eru stór) þar til kartöflurnar eru gylltar og lærin gegn steikt.  Tekið úr ofninum, raðað á fat, Feta osturinn mulinn yfir, söxuðu dilli og sítrónusafa.  

Verði þér að góðu:-)

Verður ekki betra..... 🥰