Vatnsdeigsbollur

Það sem til þarf er:

25-30 stk.

100 gr. smjör

2 1/2 dl vatn

100 gr. hveiti

3 egg (ekki stór)

Salt

Þetta er gamalreynd uppskrift frá mömmu sem er snillingur að baka.  Ég hef hingað til komið mér undan því að baka bollur, en fannst tímabært að takast á við þær núna, ekkert múður meira.  Þær heppnuðust svona líka vel, þannig að ég kvíði ekki næsta bolludegi.

En svona gerir mamma:

Ofninn er hitaður í 200°C (180°C á blæstri).  Vatn og smjör er hitað að suðu.  Hveitinu er svo hrært útí með sleif þar til deigið er laust frá hliðunum á pottinum, þá er smá salti stráð yfir og degið látið kólna aðeins.  Síðan er eggjunum hrært útí með rafmagnsþeytara, einu í einu, þeytt vel á milli.  Deigið má ekki vera of lint, getur þurft að bæta smá hveiti í til að það standi þokkalega vel.  Bökunarpappír er settur á plötu og deigið sett með tveim teskeiðum á plötuna með góðu bili á milli.  Bollurnar eru bakaðar í miðjum ofninum í 25-30 mín.  Það er mikilvægt að OPNA EKKI OFNINN fyrstu 20 mín.  Kældar og fylltar eftir þínum smekk. Ef þú vilt fá gljáa á bollurnar er gott að pensla þær með þeyttu eggi.

Verði þér að góðu :-)

Bollur með hindberjarjóma

Bolla Bolla!!