Kampavíns- og hindberja rjómi

Það sem til þarf er:

f. 4

280 gr. frosin hindber, afþýdd

4 msk. freyðivín, (Cava passar vel, er nógu þurrt)

4 dl rjómi

6 msk. sykur

2 msk. hrásykur

Skraut:

2-4 tsk. frostþurrkuð hindber, eða 4-8 fersk hindber

Meðlæti:

Þunnar hunangskökur, skornar í lengjur

Áramót, nýtt ár, nýtt upphaf, tími til að þakka fyrir árið sem er að líða.  Horfa saman á Skaupið og annaðhvort hneykslast á því eða liggja í krampa af hlátri.  Allavega boðrum við familían alltaf desertinn á meðan.  Þessi er hátíðlegur, geggjað góður, einfaldur og hægt að gera hann löngu áður :-)

Svona geri ég:

Kampavínið og hindberin eru sett í blandara og maukuð þar til þau eru eins slétt og kekkjalaus og hægt er.  Sigti er sett undir skál og maukinu hellt í sigtið og þrýst í gegnum það með bakinu á sleif og pressaður eins mikill vökvi úr því og hægt er, geymt, hratinu er hent.  Rjómi og sykur eru sett í pott og hitað rólega þar til sykurinn er bráðinn.  Þá er hitinn hækkaður og hitað að suðu og látið sjóða af krafti í 2 1/2 mín., og hrært í stöðugt í á meðan.  Slökkt undir og potturinn tekinn af hellunni.  Kampavíns/hinberjamaukinu er hrært útí.  Kælt í 15 mín. síðan er rjómanum skipt á milli lítilla glasa eða skála.  Kælt áfram í 30 min., og skreytt með þurrkuðum hindberjum eða ferskum berjum, og kælt áfram í amk. 2 klst., helst yfir nótt.  Borið fram með mjóum fingrum skornum úr hunangs kökum.

Verði þér að góðu :-)

wóoooo 🍾