Karaage

Það sem til þarf:

F. 4

700 gr. kjúklingalæri

2 bollar kartöflumjöl

3 bollar af grænmetisolíu

Kryddlögur:

1/4 bolli soja sósa

2 msk. Sake (má nota þurrt Sherrý í staðinn)

1 tsk. sesam olía

1 þumall fersk engiferrót, rifinn

3 hvítlauksrif, marin

2 tsk. sykur

Togarashi:

2 msk. rauðar chili flögur

1 msk. appelsínubörkur, fín rifinn

1/4 tsk. sítrónubörkur fín rifinn

2 tsk. hvít sesam fræ

2 tsk. svört sesam fræ

1 tsk. svört piparkorn

1 tsk. kóríanderfræ

1 tsk. þurrkað engiferduft

1/2 tsk. birkifræ

1/2 blað þurrkað nori þang, mulið

Meðlæti:

Kewpie, japanskt majónes

Klikkað gott!!  Lærin af kjúklingum eru lang, lang best, að mínu mati.  Hér eru þau í japönskum búning, marineruð með soja, hvítlauk og engifer, síðan eru þeim pakkað inn í stökkan tvísteiktan hjúp.  Meðlætið er einfalt, það er japanskt Kewpie majónes og kryddblanda, sem heitir togarashi.  Hún er með nokkrum tegundum af pipar, sítrus berki og kóríander og hún svíkur ekki, heldur lætur hún réttinn poppa upp.  Það þarf að tvísteikja kjúllann, til að hjúpurinn verði súper stökkur, ekki sleppa seinni steikingunni, það munar um hana.  Endilega trítaðu þig og fáðu þér karaage með togarashi og mæjó ;-)

Svona geri ég:

Kjúllinn:  Byrjaðu á að búa til kryddlöginn,  Sake,  soja sósa, rifin engiferrót, marinn hvítlaukur, sykur og sesam olía er blandað saman í djúpt fat.  Beinin eru tekin úr kjúklingalærunum og þau skorin í 2-3 bita, eftir því hvað þau eru stór.  Bitarnir eru settir í kryddlöginn og þeim velt vel upp úr honum, svo allt sé þakið. Plast sett yfir skálina og henni stungið í ísskápinn í ca. 4 tíma.  Bakki eða ofnplata er gerð klár og bitarnir teknir upp úr kryddleginum með tveim göfflum og þeim er síðan velt upp úr kartöflumjölinu, nokkrum í einu og þeir síðan settir á bakkann þar til þú ætlar að steikja þá.  Olían er hituð í stórum potti, gott er að athuga hvort hún er nógu heit, með því að láta brauðbita ofan í hana, hann á að fljóta upp og verða gylltur á 30 sek.  Gott er að hafa tilbúin annan bakka með eldhúsrúllu blöðum til að setja steiktu bitana á, svo olían leki vel af þeim.  Bitarnir eru steiktir í olíunni í 2-3 mín., þar til þeir eru gegn steiktir, í nokkrum áföngum og látið leka af þeim.  Þegar allir bitarnir eru steiktir einu sinni, eru deig agnir sem hafa orðið eftir í olíunni teknir upp úr með gataspaða.   Síðan eru bitarnir steiktir í seinna skiptið, en bara stutt ca. 1 mín., þar til þeir eru gylltir og mjög stökkir.  Sjávarsalt mulið yfir bitana.  Borið fram með japönsku majónesi og togarashi  blöndunni.

Togarashi:  Hvítu og svörtu sesamfræin, piparkornin, kóríander- og birkifræin eru létt steikt á þurri pönnu þar til þau gefa frá sér ilm, passa að brenna þau ekki.  Látið kólna alveg.  Restinni af hráefninu er blandað út í og sett í kryddmillu eða marið í morteli.  Geymist vel og mjög gott krydd á  ýmsan mat, ef það verður afgangur.

Verði þér að góðu :-)

Krönsý og kryddað 😮