Hangikjöt

Það sem til þarf er:

F. 4-5

1.4 kg. úrbeinað hangikjðt, frampartur eða læri

2 msk. sykur

Meðlæti:

Uppstúfur

Grænar baunir, frá Ora

Rauðkál, frá Ora

Laufabrauð

Kalt smjör

Dásamlegt hangikjöt.  Mér finnst nauðsynlegt að borða hangikjöt í kringum jólin.  Það er dásamlegt hvort sem það er kalt eða heitt, en vafalaust hefur hver sinn smekk fyrir því.  Mér finnst skipta svo miklu máli að það sé ekki of salt á bragðið.  Þess vegna sýð ég það í svolitlum sykri til að mýkja bragðið aðeins, án þess að það breytist nokkuð.  Svo þarf líka að passa að ofsjóða það ekki, þess vegna sýð ég það ekki lengur heldur læt það standa í 30 mín., í heitu suðuvatninu.  Endilega kíktu á ;-)

Svona geri ég:

Ég byrja á því að skola hangikjötsrúlluna undir rennandi köldu vatni.  Hangikjötið er sett í rúmgóðan pott sem er fylltur upp af köldu vatni, svo það fljóti yfir rúlluna og sykrinum er blandað út í vatnið.  Klukkan stillt á 1 klst. og kveikt undir pottinum og suðan látin koma hratt upp.  Þegar klukkan hringir er slökkt undir pottinum og hann tekinn af hitanum.  Klukkan er stillt aftur á 30 mín. og kjötið látið standa í heitu suðuvatninu þar til hún hringir.  Kjötið er tekið úr vatninu og sett á disk svo það leki vel af því, það er gott að hafa álpappír yfir því svo það kólni ekki.  Sett á fat og skorið í miðlungs þunnar sneiðar og borið á borð með uppstúf, grænum baunum,rauðkáli, laufabrauði og köldu smjöri.

Verði þér að góðu :-)

"Nú mega jólin koma fyrir mér.." 🌲