Nauta ribeye með dökkri ölsmjörsósu

Það sem til þarf er:

f. 5-7

5 kg. rib eye á beini (ég fékk mína í Melabúðinni)

1 msk. fennelfræ

2 tsk. kóríanderfræ

2 tsk. cuminfræ

1 tsk, sellerýfræ (eða sellerýsalt ef þú færð ekki fræin)

1 tsk. kúmenfræ

Salt og grófmalaður svartur pipar

2 msk. olía

2 1/4 bolli dökkt öl t.d. Newcastle

2 1/4 bolli nautasoð

3 msk. Dijon sinnep

4 msk. ósalt smjör, kalt

Sjávarsalt í lokin

Meðlæti:

Gulrætur með kúmeni

Hátíðarsteikin mín.  Ég hafði þessa á áramótunum, hún var æði.  Hún dólaði í ofninum á meðan ég fór í skeifnareiðtúrinn, sem er alltaf á Gamlársdag.  Svo kom ég heim og kláraði að elda á réttum tíma fyrir boðið :-)

Svona gerði ég:

Kjötið er látið standa útá borði yfir nótt áður en það er steikt

Dryrub:  Fennel- kóríander-cumin- sellerý -og kúmenfræjum ásamt 2 tsk. salti og 1 tsk. pipar, er gróf mulið í mortéli (ekki of fínt).  Steikin er smurð með olíu og síðan er kryddinu þrýst á kjötið.  Ofninn er hitaður í 100°C.  Steikin er sett í steikarfat, beinin snúa niður og kjöthitamælir settur á þykkasta stað í steikinni (passa að hann lendi ekki á beini).  Steikt þar til mælirinn sýnir 50-53° fyrir rare, 55° fyrir medium rare og 60-65°C fyrir fyrir medium.  Tekur 4-5 tíma, en ATH. BYRJA AР SKOÐA Á MÆLINN EFTIR 3-4 TÍMA, til að vera viss um að ofsteikja ekki kjötið.  Þegar steikin er tilbúin er hún látin standa á borði án þess að setja yfir hana í 1 ½ tíma.  Síðan er ofninn hitaður í 250°C og steikin brúnuð í 15 mín.  Sjávarsalti dreyft yfir. Soðið í steikarskúffunni er sett í pott (öll brúnaða skánin í botninum gefur svo mikið bragð) með ölinu og soðinu og látið sjóða niður um rúmlega helming, eða þar til 1 ½ bolli er eftir.  Þá er sinnepi bætt við og hrært í á meðan.  Potturinn tekinn af hitanum og smjörinu þeytt saman við, passa að sjóði ekki eftir að smjörið er komið útí, kryddað með salti og pipar.  Þegar steikin er skorin er best að skera beinið frá og skera svo í sneiðar á hvern disk.

Gulrætur með kúmeni:  Gulræturnar eru skornar í mjóar lengjur.  Sykur, olía og kjúklingasoð ásamt salti pipar og ½ -1 tsk. af kúmeni er sett í pott og soðið þar til gulræturnar eru meyrar og vökvinn gufaður upp.

Verði þér að góðu:-)

Gleðilegt ár ✨