Andabringur með kirsuberjasósu

Það sem til þarf er:

F. 6

Andabringurnar:

3 andabringur

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

1/2 tsk. allrahandaber

1 tka. svört piparkorn

4 negulnagar

2 lárviðrauf

1/2 tak. fennelfræ

Kirsuberjasósan:

1/4 bolli hrásykur

1/2 bolli rauðvínsedik

1/2 bolli rauðvín

1 bolli kjúkingasoð

1 msk. rifið ferskt engifer

Cayenne pipar á hnífsoddi

Sjávarsalt

2 msk. smjör

220 gr. frosin kirsuber

2 tsk. syksur

1 msk. Koníak

Hér er á ferðinni klassískur franskur réttur, sem er rosalega góður og hátíðlegur að bera á borð.  Ég gerði hann fyrst á gamlárskvöld og hann sló í gegn hjá mínu fólki.  Það er auðvelt að búa hann til sósuna má gera fyrr um daginn, eða jafnvel daginn áður, svo steikir þú andabringurnar, þegar á að borða þær.  Endilega prófaðu, þú verður ekki fyrir vonbrigðum :-)

Svona geri ég:

Kirsuberjasósan:  Hrásykurinn og rauðvínsedikið er sett í pott og látið malla í um 2 mín., þar til það er orðið sírópskennt.  Rauðvíni og kjúklingsoði er bætt út í pottinn og soðið áfram á meðalhita í um 5 mín., þar til það er farið að þykkna.  Þá er engiferinu bætt út í, ásamt cayenne piparnum og 1/2 tsk. af salti.   Til að klára sósuna er smjörið sett í pott á meðalhita, síðan er kirsuberjunum bætt út í og sykrinum og það látið malla í nokkrar mínútur, þar til berin eru orðin heit og farin að gefa frá sér safa, hrært í á meðan.   Koníakinu er bætt út í og látið malla áfram í mínútu.  Þessu er hellt út í sósuna og hitað í gegn.  Ef þér finnst sósan of þunn, getur þú þykkt hana með sósujafnara.

Andabringurnar:  Kvöldið áður en á að elda bringurnar, eru þær þerraðar vel, snyrtar ef þarf.  Síðan eru skornir tíglar í húðina, með mjög beittum hníf.  Bringurnar eru saltaðar og pipraðar.  Grófa kryddið er sett í mortel og marið niður, því er síðan nuddað ofan í húðina og á kjötið.   Bringurnar eru settar á disk og plastað yfir þær og stungið í ísskápinn fram á næsta dag.   Þær eru teknar úr ísskápnum nokkrum tímum áður en þú steikir þær.   Ofninn er hitaður í 200 °C.  Andabringurnar eru settar með húðina niður, á kalda þykkbotna pönnu og kveikt undir á á meðalhita.  Bringurnar eru látnar steikjast í um 7 mín., þá er þeim snúið þær steikar áfram í 5-7 mín.  Bringurnar eru settar á ofnplötur og stungið í ofninn í 8-10 mín.  Teknar úr ofninum og látnar hvíla í um 10 mín., áður en þær eru skáskornar í meðal þunnar sneiðar og bornar á borð með sósunni.

Verði þér að góðu :-)

Andabringurnar

Kirsuberjasósan

Yndislegur sparimatur 🍷🦆