Baconvafinn Halloumi ostur

Það sem til þarf er:

F. 2

1 stk. Halloumi ostur

5-6 vænar baconsneiðar

1 haus Lambhagasalat, grófsaxað eða rifið

1 miðlungs tómatur, i bátum

1/2 gúrka, í hálfmánum

2 vorlaukar, skáskornir í sneiðar

1/2 lúka kryddaðar, sætar hnetur, saxaðar

3 msk. olía úr Feta osta krukku

Safi úr1/2 litlu lime

Það er alltaf gaman að setja saman nýtt salat til að gæða sér á í hádeginu eða hafa sem léttan kvöldmat. Ég hef alltaf sagt að bacon geri eiginlega allt betra og nýsteikt djúsí bacon, vafið utan um heitan ost er einhverskonar himnaríki. Ferskt, brakandi grænmeti og sætkryddaðar hnetur með, er bara jummý!

Svona geri ég:

Mér finnst best að búa salatið til fyrst og setja á diskana, áður en ég steiki ostinn svo hann sé heitur þegar ég ber salatið á borð. Salatlaufið er rifið eða saxað gróft og dreift á 2 diska, tómaturinn skorinn í báta, gúrkan er skorin í hálfmána og laukurinn skáskorinn i sneiðar og öllu dreift yfir salatlaufið. Ef þú átt kryddaðar hnetur, eða bara venjulegar ósteiktar er frábært að rista þær í smástund upp úr smáskvettu af hlynsírópi, kæla þær og saxa gróft. Nokkrar skeiðar af olíunni af Feta osti er drussað yfir salatið á diskunum, lime safi kreistur yfir og síðan er hnetunum dreift yfir. Halloumi osturinn er skorinn í ca. 1 cm sneiðar og vænni baconsneið vafið utan um hverja ostsneið. Panna er hituð á meðalhita og baconvafði osturinn steiktur í 3-4 mín. á hvorri hlið þar til baconið er ristað og stökkt og osturinn heitur í gegn. Heitum ostsaneiðunum er staflað í miðjuna á hvorum disk ogborið á borð.

Verði þér að góðu :-)

Dásemdin ein 😌