Krydduð lambabaka

Það sem til þarf er:

F. 4

3 msk. olía

800 gr. magurt lambakjöt

3 msk. hveiti

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

1 stór laukur, saxaður

2 solo hvítlaukar, kramdir

1 msk. ras el hanout, kryddblanda (fæst í Bónus, frá Santa Maria)

2 tsk. malaður kóríander

2 tsk. cumin

Malaður negull milli fingra

Saffran, milli fingra

1 kanilstöng

400 gr. dós tómatar

1 sítróna, safi og fín rifinn börkur

1 msk. hunang

4 msk. granatepla síróp

1 pakki, 300 gr. af filo deigi

50 gr. smjör, bráðið

50 gr. möndluflögur

50 gr. granatepla kjarnar

Bakan er svo falleg að maður varla tímir að borða hana... en hún er svakalega góð. Tóninn í henni er mið-austurlenskur, djúpur og dásamlegur og filo deigið gefur svo skemmtileg kröns. Þetta er frábær helgarmatur, sem dólar í ofninum á meðan þú nýtur dagsins. Endilega að prófa :-)

Svona geri ég:

Kjötið: Ofninn er hitaður á 140°C. Kjötið er snyrt og skorið í miðlungs stóra bita. Hveitið er sett í stóra skál og bitunum er velt upp úr hveitinu og kryddað vel með salti og pipar. Hluti af olíunni er hitaður á stórri ofnþolinni pönnu og kjötið brúnað vel á pönnunni. Það er ágætt að gera það í nokkrum skömmtum svo það brúnist örugglega. Það gefur svo gott karmelliserað brag af kjötinu, tekið af pönnunni og sett á disk. Restin af olíunni er hellt á pönnuna og laukurinn og hvítlaukurinn steiktur á miðlungshita í ca. 5 mín., þar til hann er mjúkur, þá er kryddunum, tómötunum, sítrónusafa, berki, hunangi og sírópi bætt á pönnuna. Dósin undan tómötunum er fyllt af vatni og því hellt út á pönnuna. Suðan látin koma upp og kryddað til með salti og pipar. Smjörpappír er sniðinn til svo hann passi ofan á kjötið á pönnunni, álpappír er er svo settur yfir og honum lokað vel ofan á pönnunni. Henni er svo stungið í ofninn og bakað í 2 1/2 tíma. Það er ágætt að kíkja undir ál lokið til að hræra í við og við, bæta vatni út í, ef þér finnst vanta vökva á pönnuna. Þegar kjötið kemur úr ofninum, er það sett í eldfast fat, þetta má gera fyrr um daginn og klára svo bökuna seinna.

Filo lokið: Ofninn hitaður í 180°C. Deiginu er rúllað út á borðið. Smjörið er brætt í potti og þunnu lagi að smjöri er smurt á hvert deigblað og það svo kuðlað saman og raðað ofan á kjötið í fatinu. Endurtekið með öll deig blöðin og síðan er möndluflögunum dreift yfir allt. Bakað í 30-35 mín., þar til deigið er gyllt og farið að búbbla í fyllingunni. Tekið úr ofninum og granatepla kjörnunum dreift yfir. Ef þú vilt, er gott að bera fram grænt salat með bökunni.

Verði þér að góðu :-)

Ævintýralega góð!!