Ást við fyrsta bita

Það sem til þarf er:

f. 6-8

180 gr. smjör, við stofuhita

180 gr. sykur

2 egg, létt þeytt

125 gr. hveiti

100 gr. möndlur, malaðar

2 1/2 tsk. lyftiduft

1 dl mjólk

4 msk. gott kakó (ég nota frá Green & Black)

200 gr.  súkkulaði með sjávarsalti frá Green & Black  (ljósbláu pökkunum), grófsaxað

200 gr. hvítt súkkulaði frá Green & Black, grófsaxað

Ef þú heldur að ég sé að ýkja, gleymdu því.  Þetta er bókstaflega ást við fyrsta bita.  Enda, hvað er ekki að elska við nærri 1/2 kg. af súkkulaði??? Nei, í alvöru, ég bara spyr ;-)

Án fleiri orða, þá gerum við svona:

Ofninn er hitaður í 160°C.  Jólakökuform er smurt vel, að innan með smröri og síðan er hveiti hrist um hliðarnar á forminu.  Sykur og smjör er hrært saman í hrærivél þar til það er ljóst og létt.  Þá eru þeyttu eggjunum bætt útí, síðan er þurrefnunum og hrært varlega saman þar til deigið er samfellt og mjúkt.  Þá er grófsöxuðuð súkkulaðinu blandað varlega útí deigið.  Deiginu er hellt í formið og bakað í 45 mín., (ath. ofnar eru misjafnir) eða þar til kakan er risin í miðjunni en ennþá svolítið hlaupkennd í miðjunni, þá er hún fullkomin og seigfljótandi í miðjunni, þegar þú berð hana fram. Ef þú vilt hafa hana stinnari, er hún bökuð í 5-10 mín. lengur.  Þegar hún er bökuð er hún tekin úr ofninum og látin standa í smástund i forminu. Siðan finnst mér best að hvolfa forminu á kökudisk og láta hana standa þannig í smástund, þar til ég ber hana fram, það heldur henni líka volgri lengur.  Hún er dásamleg með mjúkum vanilluís og ferskum berjum eða berjasósu, eða báðum, himnaríki.

Verði þér að góðu :-)

Ps.  Þessi kaka er frábær  eftirréttur sem er hægt að undirbúa áður en gestirnir koma og skella svo í ofninn, þegar byrjað er að borða aðalréttinn. Þá er hún akkúrat tilbúin þegar búið er að ganga frá og allir tilbúnir í desert.   Áður en gestirnir koma geri formið tilbúið og hræri smjör og sykur létt og ljóst í hrærivélinni og skil það eftir í skálinni á hrærivélastandinum.  Þeyti eggin í lítilli skál og set yfir hana plast.  Mæli öll þurrefni í poka og geymi, það sama geri ég við súkklaðistykkin, saxa þau og set í poka. Mjólkina set ég í litla skál og geymi þetta allt hjá hrærivélinni.  Svo er bara að klára að búa til degið og hella því í formið, og stinga kökunni í ofninn, rétt áður en sest er að borðum, búið mál :-)  Ég leyfi mér að setja í poka frekar en að nota skálar til að spara mér uppvaskið, svona stundum þegar margir eru í mat, þó ég sé á móti mikilli plastnotkun.

Orð eru óþörf... 😘