Smjörbakaður kjúklingur frá Georgíu
Það sem til þarf er:
f. 3-4
1 heill kjúklingur
Salt og pipar
1/2 bolli smjör
3-5 hvítlauksrif
10 valhnetur
Meðlæti:
Salat að þínum hætti
(Ég notaði kirsuberjatómata, rauða papriku, jarðarber, volauk og ferskt tarragon með slettu af balsamik gljáa)
Í saumaklúbb hjá mér um daginn, rak ein vinkona mín augun í rússneska matreiðslubók sem ég er búin að eiga í mörg ár. Það varð til þess að ég fór að kíkja í bókina, en það er orðið nokkuð langt síðan ég opnaði hana síðast. Mér fannst mjög gaman að pæla í rússneskum mat hérna um árið og gerði svolítið af því að elda hann. Ég ákvað að prófa eina uppskrift úr bókinni, einhverja sem var einföld og fljótleg. Þessi varð fyrir valinu, hún er frá Georgíu, ég á örugglega eftir að gera hana aftur, því ég elska mat sem sér um sig að mestu sjálfur.
En svona gerum við:
Ofninn er hitaður í 180°C. Kjúklingurinn er þerraður vel, og ef þú átt kjúklingaskæri, þá er klippt upp með hryggnum og hann klipptur af, annars skorinn af með beittum hníf (PASSA fingurna) þá er kjúklingnum snúið og hann flattur út og brigubeinið brotið, svo hann sé eins flatur og hægt er. Kjúklingurinn er síðan nuddaður vel með salti og pipar. Smjörið er brætt á pönnu sem þolir að fara í ofn, og kjúklingurinn er síðan brúnaður báðu megin. Pönnunni er síðan stungið í ofninn og kjúklingurinn bakaður í 45-55 mín., Það er gott að ausa smjörinu yfir hann af og til á meðan á steikingu stendur. Á meðan kjúllinn mallar í ofninum eru valhneturnar rifnar á rifjárni ásamt hvítlauknum, því er svo blandaða saman með 1 msk. af volgu vatni og smávegis af grófu sjávarsalti. Þegar ca. 10 mín eru eftir af steikingartímanum er maukinu nuddað á kjúllann og smjörinu ausið yfir hann í síðasta sinn, borinn fram með salati.