Himnesk súkkulaðimúss

Það sem til þarf er:

F. 8-10

Í svampbotninn:

3 egg

75 gr. sykur

75 gr. hveiti

3 tsk. kakó

Í súkkulaðimússina:

3 eggjahvítur

175 gr. sykur

325 gr. suðusúkkulaði

4.25 dl rjómi

2 tsk. Grand Marnier eða Brandý, ef þú vilt

Í skrautið:

4-5 egg (til að móta blúnduegg úr)

100 gr. suðusúkkkulaði

2-3 msk. apríkósumarmelaði, sstóru bitarnir sigtaðir frá

1-2 msk. vatn

Kakóduft

Nokkur gyllt, innpökkuð súkkulaðiegg

Fallegur gylltur/gulur silkiborði

Borðskreytingin á páskaborðinu verður ekki fegurri en þessi fallega súkkulaði múss. Hún er pökkuð inn í þunnan botn sem er smurður með þunnu lagi af apríkósu mauki svo hann haldist mjúkur og glansandi á meðan, hún er hlutverki sínu sem borðskraut. Fyrir utan að vera himnesk í munni, er hún mjög skemmtileg og auðveld búa til og má gera allavega tveim dögum áður en á að nota hana. Svo þú hefur nógan tíma til að njóta þess að búa hana til og láta þér hlakka til að smakka. Ég bauð mínu fólki uppá hana nú, um páskana og hún sló í gegn, enda hvað er ekki að elska við súkkulaði, rjóma og egg?

Svona geri ég:

Svampbotninn: Ofninn er hitaður í 180°C. Ofnplata sem er 38x25 cm, er smurð að innan sem olíu og bökunarpappír sniðinn ofan í hana. Egg og sykur er þeytt saman í hrærivél í 7-8 mín., þar til hræran er mjög létt og ljós. Hveitið er sigtað í skálina og hrært varlega út í með sleikju. Þriðjungur af deiginu er sett í aðra skál og kakóið er sigtað út í það og hrært saman við. Súkkulaðideigið er sett í sprautupoka með grönnum sléttum stút og línur sprautaðar með jöfnu millibili á bökunarplötuna. Gott að styðja við stútinn með því að leggja langa reglustiku ofan á plötubrúnirnar og halda við hana með hendinni. Plötunni er stungið í frystinn í 10 mín. Síðan er hún tekið út og ljósa deigið sett með skeið, á milli línanna og smurt svarlega út á milli þeirra og ofan á. Bakað í 10-12 mín., þar til botninn er gylltur og fullbakaður. Tekin úr ofninum og látin kólna í 5 mín. í forminu áður en hún er tekin úr því og kæld á grind. Kantarnir eru skornir af og síðan er botninn skorinn í 7 cm lengjur eftir lengdinni. 20 cm. lausbotna hringlaga form, er klætt að innan með plastfilmu og það fóðrað að innan með kökulengjunum. Geymt þar til mússin er tilbúin.

Súkkulaðimússin: Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði, kælt aðeins. Á meðan er rjóminn er þeyttur í mjúka toppa. Sykur og eggjahvítur eru sett í hitaþolna stóra skál, hitað yfir vatnsbaði og þeytt með rafmagns þeytara, þar til þú færð stíft marengskrem út, ca. 5-8 mín., tekið af hitanum. Súkkulaðinu er hrært varlega út í marengskremið og síðan er rjómanum hrært varlega út í. Hellt í formið og því lokað vel með plasti og stungið í ísskápinn í allavega 2 tíma eða allt upp í 2 sólarhringa.

Samsetning: Köld egg eru klædd þétt með plastfilmu, gott að hafa hana eins slétta ofan á eggjunum og hægt er. Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði og sett í sprautupoka. Það er nauðsynlegt að kæla súkkulaðið í ísskáp þar til það er seig-fljótandi svo það hreyfist sem minnst þegar þú sprautar því í fallegt blúndu mynstur yfir eggin. Það er ágætt að hafa línurnar ekki alltof mjóar, svo þær brotni ekki þegar þú losar þær af filmunni. Skreyttum eggjunum er stungið í kælinn og þau geymd þar til þú ætlar að skreyta mússina. Þegar á að klára mússina, er formið sett varlega á niðursuðudós svo helmingurinn af botninum sé laus upp úr forminu og kakan er skorin eða klippt til, svo hún sé jafn há alstaðar. Ég notaði hrein skæri til að klippa botninn til, það virkaði vel. Kakó er sett í lítið sigti og til að vera nákvæmur og fara ekki með kakóið út á endann á botninum, er gott að nota skaftið á skeið og snúa því ofan í kakóinu í sigtinu, til að dreifa því hnitmiðað ofan á mússina. Smávegis af vatni er blandað við apríkósumaukið í litlu potti, hrært saman og hitað svo það sé fljótandi. Þunnu lagi er smurt með kökupensli yfir botninn. Svo er plastið losað varleg af stóru eggjunum, gylltum smáeggjum er stungið fallega ofan á kakóið og súkkulaði blúndueggin lögð varlega yfir þau. Fallegur borði er bundinn utan um mússina og slaufa hnýtt á hann. Mússin getur staðið í ca. 2 tíma óvarin á borði. Það er gott að hafa skál með þeyttum rjóma með.

Verði þér að góðu :-)

Svampbotninnn

Súkkulaðimússin

Samsetning

Himnesk í munni og á borði 😇💜