Hryggurinn hennar  Kristínar

Það sem til þarf er:

F. 5-6

1 stk. 2.3 kg. lambahryggur

6 sóló hvítlaukar, saxaðir miðlungs gróft

Rósmarín smjör:

120. gr. smjör, mjúkt

2 tsk. þurrkað rósmarín

1/2 tsk. þurrkað timian

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Í ofnskúffuna:

2 stórir laukur

5-6 gulrætur

1/2 flaska þurrt hvítvín, eða 3-4 dl soð (má vera blanda af báðu)

Sósa:

Sigtað soðið úr steikarfatinu

Ca. 1 1/4 tsk. þurrkað rósmarín

Ca. 1 tsk. þurrkað timian

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

2 1/5-3.0 dl rjómi

Sósujafnari eftir smekk

Hasselback kartöflur

Waldorf salat

Sko, hér er fyrsta útgáfa af lambahrygg sem ég man eftir að hafa eldað.  Mamma ljósritaði síðu úr Vísi fyrir mig, með uppskriftin frá Kristínu Andrésdóttur, hússtjórnarkennara, en hún valdi matseðil vikunnar, mánudaginn 11. maí 1981.  Ég man hvað mér fannst þetta geggjaður hryggur, svo mikið tilbreyting frá gömlu góðu sunnudagssteikinni, sem maður borðaði þó alla sunnudaga í hádeginu í uppvextinum, já, ég er það gömul, að það var alltaf steik í sunnudagshádeginu :-)  Steikin gamla var góð, en orðin svolítið þeytt, svo tilbreyting var akkúrat það sem vantaði, meðlætið er það sama og Kristín var með.  Ég breytti hryggnum fljótlega í læri, því mér fannst lærið betra en hryggurinn, annars er allt svo til eins.  Endilega prófaðu, þú verður ekki fyrir vonbrigðum :-)

Svona geri ég:

Hryggurinn:  Hryggurinn er tekinn úr frystinum 3-4 dögum áður en þú ætlar að elda hann.  Hann er látinn standa á borði yfir nótt til að afþýða hann.  Síðan er hann þerraður og settur í nýtt plast og geymdur í ísskápnum, þar til morguninn sem þú ætlar að elda hann.  Þá er hann tekinn út og látinn bíða á eldhúsborðinu, fram að eldunartíma.  Rósmarínið smjörið er gert klárt, allt hráefnið er sett í skál og blandað vel saman.  Ofninn er hitaður í 250°C.  Hryggurinn er þerraður mjög vel með eldhúspappír, saltaður og pipraður á neðri hliðinni.   Ofan á hryggnum er skorin rauf iður í bein meðfram lengdinni á hryggnum, beggja vegna. Skurðurinn er opnaður og söxuðum hvítlauknum þrýst ofan í skurðina. Hryggurinn er saltaður og pipraður og síðan er rósmarín smjörinu smurt yfir húðina. Laukurinn er skorinn í meðal þykkar sneiðar, gulræturnar eru skornar í nokkra Grænmetið er lagt í miðjuna á steikarfati og hryggurinn settur ofan á það.  Víninu er hellt i skúffuna og lærið sett í ofninn og steikt í 15 mín., hitanum, síðan er hitinn lækkaður í 170°C og steikt áfram í 1klst. og 15-30 mín., eftir því hvað þú vilt hafa hann steiktan.  Soðinu í skúffunni er ausið yfir hrygginn á meðan hann steikist.  Tekin úr ofninum og látinn standa og hvílast á meðan þú klárar sósuna.

Sósan:  Öllu soði og grænmeti, úr steikarskúffunni, er hellt í stórt sigti yfir potti og allur safi pressaður úr grænmetinu, því er síðan hent.  Suðan er látin koma upp í pottinum og smakkað til með rósmarín, timian.  Rjóma er þætt út í sósuna eins og þér finnst passa, síðan er sósan þykkt til með sósujafnara að þínum smekk.  Borið á borð með Waldorf salati og Hasselback kartöflum.

Verði þér að góðu :-)

Enn jafn gott 🍴😋