Kryddsulta með anís og múskati

Það sem til þarf er:

ca. 4-5 litlar krukkur

750 gr. bláber

Tæplega 1 poki pektín

1/4 tsk. fínmalaður anís

10-20 strokkur á fínu rifjárni af múskathnetu, eða 1/4 tsk. malað

2 msk. sítrónusafi

5 msk. eplaedik

3 bollar sykur

1/2 bolli vatn

Þessi sulta er í mínu vopnabúri. Hún er skemmilega krydduð með anís sem gefur nettan lakkrískeim og svo múskati sem er fínlegt ljúft krydd. Sultan er góð með öllu, hvort sem það eru ostar, paté eða gamla góða kótelettan.

En, hér er aðferðin:

Berin eru sett í pott og hituð á miðlungs hita. Pektíninu er hellt yfir berin, ásamt anís, múskati, sítrónusafa og ediki. Þegar vökvi fer að myndast í botninum á pottinum er hitinnn hækkaður og suðan látin koma upp. Lækkaðu aðeins hitann og láttu malla í um 5 mín., það er ágætt að merja berin aðeins með kartöflustappara. Sykri og vatni er bætt útí og soðið í 2-3 mín. í viðbót. Gott ráð til að vita hvort sultan er mátulega stíf, er að setja nokkra dropa á kaldan disk og velta honum um diskinn. Ef hún stirðnar eftir nokkrar sek. er hún tilbúin. En ef hún er og þunn ennþá lætur þú hana sjóða í 1-2 mín. lengur. Sultunni er ausið sjóðandi heitri í hreinar, sterilar krukkur. Það er mikilvægt að fylla krukkurnar vel og að engar loftbólur séu í maukinu. Þessvegna er ágætt að hræra nett í maukinu með grillpilla eða einhverju slíku, áður en þú lokar krukkunni. Ég skil eftir ca. 2 mm borð efst í krukkunni og klippi út smjörpappírslok og set ofaná áður en ég loka krukkunni fast. Ég læt krukkurnar standa á hvolfi á meðan þær kólna alveg. Óopnuð krukka geymist á köldum stað í nokkurn tíma.

Verði þér að góðu :-)

Svona sótthreinsa ég krukkur:

Ég hita ofninn í 150°C. Nýþvegnum krukkum og lokum er raðað í ofnskúffu og þær bakaðar í ofninum í 20 mín. Sultunni er ausið sjóðheitri í krúkkurnar.

Passa puttana sultan og krukkurnar eru heitar!

Ljúflega krydduð