Karamellu marengs

Það sem til þarf er:

f. 8

4 eggjahvítur

2 dl sykur

1 dl púðursykur

1/2 tsk. lyftiduft

2 bollar súkkulaði Rice Crispies

12 Töggur (eða aðrar rjóma karamellur)

1/2 L rjómi

Mamma er besti bakari ever...  Ég er svo heppin að ef ég er að elda eitthvað sem kallar bara á eggjarauður, frysti ég stundum hvíturnar í poka og færi mömmu þær.  Og eins og töfrasprota sé veifað kemur oft ÞESSI kaka til mín í staðinn.  Í fyrsta sinn þegar ég fór með eina svona í hesthúsið, til að hafa sem eftirrétt í einhverjum hitting hjá okkur Hafurstaða-hyskinu, eins og við köllum okkur stundum, datt  þögn á hópinn þegar fólk smakkaði hana.  Og ég segi ykkur það satt, það þarf talsvert til að þögn slái á þann hóp.  Ég lánaði mömmu myndavélina um daginn þegar hún var að baka og bað hana að mynda fyrir mig þegar hún var að baka, og deila með okkur uppskriftinni, sem hún gerði.  1000 þakkir elsku Mútta mín <3

En svona bakar hún þessa:

Ofninn er hitaður í 140°C á blæstri.  2 lausbotna form eru smurð að innan, hveitistráð og pappír settur í botninnn.  Hvíturnar eru þeyttar vel og sykrinum blandað varlega samanvið. Lyftiduftinu er blandað út í Rice Crispies-ið og því svo hrært varlega með sleif út í hvíturnar. Bakað í 45-60 mín.  Botnarnir látnir kólna.  Karamellurnar eru bræddar í potti með 1 dl af rjómanum og er helmingnum af karamellu bráðinni dreift yfir annan botninn.  Restin af rjómanum er þeyttur og smurt yfir karmellu húðaða botninn og hinn botninn er svo settur ofaná og restin af karamellu bráðinni látin leka fallega yfir efri botninn. Ef þú vilt þá má sprauta auka rjóma í kring en mér finnst það óþarfi.  Þessi kaka frystis mjög vel og er sjúklega góð.

Verði þér að góðu :-)

Ómótstæðileg 😉