Bleikja með blómkálsmauki og oregano smjöri

Það sem til þarf er:

f. 4

Í blómkálsmaukið:

1 kg. blómkál, þvegið og saxað

2 1/2 dl matreiðslurjómi

7 1/2 dl kjúklingasoð

25 gr. smjör í bitum

Sjávarsalt

4 x 200 gr. bleikjuflök, með roði

Sjávarsalt

Nýmalaður svartur pipar

Í oregano smjörið:

80 gr. smjör

1/4 bolli fersk oregano lauf

1 hvítlauksrif, marið

1 msk. gott balsamic edik (ekki gljáinn)

Dásamlegur matur!! Þessi réttur slær alltaf í gegn. Svo einfaldur, en samt svo flottur, hvort sem ég býð gestum hann eða elda fyrir okkur heima. Endilega prófaður að borða roðið, það er stökkt eins og á bestu purusteik, geggjað :-)

Svona gerum við þetta:

Blómkálið, rjóminn og soðið er sett í meðalstóran pott og suðan látin koma upp. Þá er hitinn lækkaður og blómkálið soðið í 20 mín. Soðinu er hellt af, en ca. 2-3 msk. af því geymt. Kálið, 25 gr. af smjöri og soðið er sett i matvinnsluvél og maukað alveg flauelsmjúkt. Smakkað til með salti. Roðið á bleikjunni er skafið með bakinu á stórum hníf. Grillið í ofninum er hitað. Bleikjuflökin eru lögð á ofnplötu með bökunarapappír, roðið niður. Saltað og piprað. Platan er sett eins hátt í ofninn undir grillið og hægt er og fiskurinn grillaður í ca. 1-2 mín., þá er honum snúið og roðið er stráð vel með sjávarsalti og platan sett aftur á sama stað í ofninn og grillað áfram þar til roðið byrjar að poppa upp i bólur og verður gyllt og alveg stökkt. Tekur ca. 3-5 mín. Hvítlauksrifið marið og sett í litla skál með blasamic edikinu. Smjörið er brætt í potti og oreganolaufið sett útí og steikt á meðalhita þar til það fer að gefa góða lykt. Tekið af hitanum og edikinu með hvítlauknum er hrært í gegnum smjörið, saltað ef þarf. Þegar bleikjuflökin eru tilbúin er blómkálsmauk sett á diskinn og flakið lagt ofaná með roðið upp og krydduðu smjörinu dreypt yfir. Endilega borðaðu roðið, það er dásamlega gott eins og besta pura. Gott hvítvínsglas með, skemmir ekki fyrir.

Verði þér að góðu :-)

Dásamlegur matur!