Tonkatsu

Það sem til þarf er:

F. 4

1 kg. svínahryggur, beinlaus og án puru, skorinn í 2 1/2 - 3 cm sneiðar

1/2 tsk. salt

Hvítur pipar

2-3 msk. hveiti

2 egg

150 gr. Panko rasp

Olía til að steikja uppúr

Tonkatsu sósa:

1 dl  Worchestershire sósa

1/2 dl tómatsósa

1/2 dl hunang

1/2 dl döðlusýróp

Meðlæti:

Fín rifið kál

Sterkt japanskt sinnnep, ef þú finnur það ekki, þá er fínt að nota enskt sinnep (Colemans, fæst í Melabúðinni)

Þetta er svoooo gott!!  Það þarf ekkert að fara á veitingastað eða panta Take away, ef þig langar í Tonkatsu, japanska svínkótilettu, í stökkum Panko hjúp með geggjaðri Tonkatssu sósu sem er súr/sæt/spicy,æði.  Tonkatsu er einfaldur dekurmatur, sem tekur enga stund að búa til og er ekki dýr.  Svo þarftu ekki að eiga neitt "spes" til að búa Tonkatsutil .  Smakkaðu um helgina!!

Svona geri ég:

Kálið er snyrt til, grófu stilkarnir eru skornir í burtu og þeim hent, laufunum er rúllað upp og þau skorin eins þunnt og þú getur með hníf.  Ræmurnar eru settar í skál með köldu vatni, þar til þú er tilbúin til að bera matinn á borð.  Öllu í sósuna er hrært saman í skál og látið bíða.  

Kjötið:  Litlir skurðir eru skornir inn í fitu hiðina á kótilettunum, svo þær verpist ekki upp í steikingunni.  Olía er sett í stóran pott með þungum botni, hún þarf að vera ca. 6-7 cm djúp.  Kótiletturnar eru saltaðar og pipraðar og dustaðar vel með hveiti alls staðar.  Eggin eru þeytt á djúpum diski og Panko raspið sett á annan.  Kótiletturnar eru dregnar í gegnum eggin og síðan eru þær settar á diskinn með raspinu og þeim velt upp úr raspinu og því þrýst vel á kjötið, svo það sé eins þykkt rasplag á þeim og hægt er.  Diskur með eldhúspappír, langar steikartangir og spaði gerð klár hjá eldavélinni.  Olían er hitur þar til hún er vel heit.  Kótiletturnar eru lagðar varlega ofan í heita olíuna og steiktar 2 í einu, þar til kjötið er gegn steikt, ca. 10-15 mín., eftir þykkt.  Því er snúið reglulega og mjög varlega til að passa að raspið detti ekki af.  Teknar úr olíunni og auka olían látin leka af þeim á pappír, haldið heitum á meðan þú klárar allar kótiletturnar. Þegar allar eru steiktar, er kálið þerrað mjög vel í salat vindu, svo er kálinu dreift á milli diska, kótiletturnar skornar í 2 cm sneiðar og 1 kótiletta sett ofan á kálið og borið fram með sósunni og sinnepinu. Ískalt gæða öl er frábært með. 

Verði þér að góðu :-)

どういたしまして..... 😄