Karamellu- og jarðarberja hreiður

Það sem til þarf er:

F. 4-6

Í marengs hreiðrin:

300 gr. hvítur sykur

150 gr. eggjahvítur, ca. 5 stk.

Í fyllinguna:

250 gr. mascarpone ostur

1 1/2 dl. matreiðslurjómi

1 msk. flórsykur

350 gr. fersk jarðarber, nokkur tekin til hliðarog skorin í sneiðar, til að skreyta með, restin eru söxuð gróft

75 gr. sykur

3 msk. sítrónusafi

2 msk. gróf saxaðar, ristaðar heslihnetur

Marengs, er hann bestur af öllu, eða hvað? Allavega hátt á listanum, þú þarft að prófa þessi dásamlegu hreiður, sem eru úr smiðju snillingin hennar mömmu, ég platað hana um uppskrift 😊

Svona geri ég:

Marengsinn: Ofninn er hitaður í 200°C. Bökunarpappír er settur á bökunarplötu og sykrinum hellt á pappírinn og hann hitaður í 5 mín., eða þar til hann byrjar aðeins að verða gylltur (má ekki bráðna). Tekinn úr ofninum og hitinn lækkaður í 110°C. Vigtaðar eggjahvíturnar eru settar í hrærivélaskál og þeyttar á lágum hraða, þar til þær byrja að þeytast og verða loftmiklar. Þá er hraðinn aukinn á hrærivélinni og þeytt áfram þar til stífir toppar myndast. Heitum sykrinum er bætt út í hvíturnar, einni matskeið í einu, passa að marengsinn stífni á milli þess sem sykrinum er bætt út í. Þegar allur sykurinn er kominn út í, er þeytt áfram í 5-7 mín., þar til marengsinn er mjúkur og glansandi. Bökunarpappír er settur á plötu, það er gott að festa hann niður með smá marengs doppu, á milli plötu og pappírs. Gott er að láta pokann standa inn í stórri könnu og síðan er eggjahvítumassinn settur varlega í pokann. 1.5 cm gat er klippt á endann, eða stútur settur á fjölnotapoka og marengsinn sprautaður í hreiður. Bakað í 45 mín., eða þar til hægt er að lyfta hreiðrunum auðveldlega af pappírnum, látin kólna alveg. Geymast í viku í lokuðu boxi með pappír á milli laga.

Fyllingin: Maskarpone osturinn er látinn standa í smástund út á borði, áður en hann er hrærður upp með matreiðsurjómanum og flórsykrinum. Söxuðu jarðarberjunum er blandað útí maskarpone hræruna, skipt á milli hreiðranna og jarðarberjunum í sneiðum er stungið ofan á til skrauts. Sykurinn er hitaður í litlum potti ásamt sítrónusafanum og látið malla rólega í nokkrar mínútur þar til sykurrinn er orðinn gylltur, ekki hræra í honum á meðan, heldur velta sykrinum um pottinn, svo hann brenni ekki á meðan hann sýður. Tekið af hitanum og hneturnar settar út í. Karamellunni er svo hellt yfir hreiðrin og þau borin á borð.

Verði þér að góðu :-)

Marengshreiður

Ommnomm 🥰