Karamellu Oreo pie

Það sem til þarf er:

F.  8-10

Oreo skelin:

36 Oreo kökur

6 msk. ósalt smjör

Karamellu fylling:

1 bolli ósalt smjör

1 1/3 bolli ljós eða dökkur púðursykur (ég nota dökkan)

1/2 bolli rjómi

Salt á milli fingra

Súkkulaði ganache:

3/4 bolli rjómi

230 gr. suðusúkkulaði

Skraut:

Grófar sjávarsalt flögur

Fersk hindber

Það er alltaf hægt að bæta við einni uppskrift í viðbót, af góðum súkkulaðidesert eða köku og setja í vopnabúrið sitt.  Sérstaklega ef það er  eins og þetta einfalda og gómsæta pæ sem kallar ekki einu sinni á að taka fram hrærivélina eða kveikja á bakar ofninum.  Ég var að leita að einhverjum góðum desert fyrir familíuna, sem finnst allt úr súkkulaði gott og fann þessa uppskrift hér. Þetta pæ er hreint dásamlegt, enda hvað getur klikkað, Oreo kex,  súkkulaði og mjúk karamella?  Það þarf ekkert að hafa fleiri orð um þetta, er það? ;)

Svona gerði ég:

Oreo skelin:  Kexið er malað fínt annaðhvort í matvinnsluvél eða kökurnar eru settar í rennilásapoka og kramið með kökukefli.   Smjörið er brætt í potti og hellt út í mulninginn, blandað vel saman og sett í 23 cm lausbotna pæ form.  Mulningnum er þrýst upp með köntunum og niður í botninn með glasi með flötum botni.  Forminu er stungið í frystinn á meðan fyllingin er búin til.  

Karamellan:  Smjör og púðursykur eru sett í pott og hitað á miðlungshita þar til fer að sjóða, hrært viðstöðulaust í á meðan, með písk. Þegar karamellan sýður er klukkan stillt á 1 mín., og hún látin sjóða áfram.  Á meðan er viðstöðulaust hrært í pottinum. Rjómanum er þá bætt út í ásamt salti og suðan látin koma upp aftur og látði sjóða í 1 mín. ,áfram og hrært í stöðugt á meðan.  Potturinn er tekinn af hitanum og písknum skipt út fyrir sleikju og hrært áfram rólega í karamellunni, skafið vel niður meðfram köntunum og botninum á pottinum, karamellan kólnar og þykknar aðeins.  Henni er síðan hellt í kexskelina og forminu stungið í frystinn í 1 klst.  

Súkkulaði ganache:  Súkkulaði og rjómi er brætt saman í potti á meðalhita, þar til það er slétt og flauelsmjúkt.  Tekið af hitanum og látið kólna aðeins. Formið er tekið úr frystinum og súkkulaðirjómanum er hellt yfir karamelluna.   Forminu er stungið í ísskápinn og pæið látið kólna alveg. Plastfilma er breydd yfir þegar það pæið er orðið kalt.  Tekið úr ísskápnum 1 klst. áður en á að bera það á borð og skreytt með nokkrum saltflögum og hindberjum.   Það sakar ekki að hafa þeyttan rjóma eða vanillu ís með.

Verði þér að góðu :-)

Klikkað gott 😮