Butterfinger kökur

Það sem til þarf er:

Ca. 30 kökur, ég viktaði kökurnar og þær voru 28 gr. hver

170 gr. ósalt smjör

280 gr. hveiti

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi

½ tsk. salt

130 gr. ljós púðursykur

65 gr. sykru

1 msk. vanilludropar

2 stór egg

2 ½ stk. Butterfinger súkkulaði, saxað

Sjávarsalt flögur

Þekkir þú Butterfinger ameríska súkkulaðið? Ég geri það, frá gamalli tíð og ég man hvað mér þótti það sjúklega gott, namm.  En eins og svo oft, var hætt að selja það, því miður….   En, svo kom verslunin Kostur fram á sviðið og þegar ég var að skoða hvað væri á boðstólum já þeim og BÚMMM… þarna var Butterfinger súkkulaðið, eins og þú getur ímyndað þér, keypti mér nokkur.  Ég prófaði að baka kökur þeim, þær eru með brúnuðu smjöri.  Ímyndaður þér seiga hunangs smjörkaramellu, súkkulaði með smá salti, almáttugur, hvað ég varð ástfangin af þeim.  Svo hér eru þær, endilega prófaðu, en búðu þig undir það versta, þú vilt bara meira og meira ;-)

Svona geri ég:

Smjörið er brætt í litlum potti á miðlungs hita.  Þegar smjörið er brætt og froðan minnkar, skaltu láta smjörið malla áfram þar til það fær á sig raf gylltan lit og það kemur hnetulykt af því, en passaðu að brenna það alls ekki.  Tekið strax af hitanum og kælt í ísskápnum í 20-25 mín., þar til  það nær stofuhita.  Ofninn er hitaður í 180°C og plötur með bökunarpappír á eru gerðar klárar.  Í meðalstórri skál er hveiti, lyftiduft, matarsódi og salt blandað saman og sett til hliðar.  Smjörið er sett í stóra skál með báðum sykur gerðum og vanilludropunum og þeytt vel saman með rafmagns þeytara, ca. 2 mín.  Síðan eru eggin þeytt út í, eitt í einu.  Deigið á að vera slétt og glansandi.  Hveitinu er síðan hrært varlega út í með sleikju, þar til allt deigið er vel blandað.  Söxuðu súkkulaðinu er hrært út í deigið og það látið hvílast í ísskáp í 45 mín.  Deigið er viktað í 28 gr. bita og rúllað í lófunum í kúlur, sem er þrýst létt ofan á með lófanum, síðan er sjávarsalt flögum dreift yfir þær.  Bakað í ofni í 10-12 mín., kældar á grind í 15 mín., áður en þú smakkar.

Verði þér að góðu ;-)

Sturlað góðar 🤯