Klassískt rabarbara pie

Það sem til þarf er:

F. 8-10

Í botninn:

2 bollar hveiti

1/2 tsk. salt

2 tsk. sykur

150 gr. Ljóma smjörlíki + 2 msk.

6 msk. ísvatn

Í fyllinguna:

5 bollar rabarbari, vel þveginn og skorinn í  litla bita

1 1/4 bolli dykur

5 msk. hveiti

1/2 tsk. kanill

1 1/2 msk. smjör

Meðlæti:

Þeyttur rjómi eða góður vanillu ís

Loksins er rabarbarinn nægilega vaxinn, til að hægt sé að taka hann upp og fara að nota hann.  Hér er á ferðinni klassískt amerískt rabarbara pie, sem er dásamlegt.  Fyllingin er mátulega sætt/súr, pie skelin er létt og svo bragðgóð.  Deigið er mjög meðfærilegt, svo það þarf ekki að láta það vefjast fyrir sér.  Þú þarft hins vegar að baka pie-ið að morgni, ef þú ætlar að nota  það samdægurs, eða daginn áður, því fyllingin þarf að þykkna, svo hún leki ekki öll út þegar pie-ið er skorið.  Stundum nota ég smá dropa af rauðum matarlit til að lita rabarbarann með, stundum ekki, hann er svo grænn, en þú velur hvað þú vilt. Geymist í kæli í 3-4 daga og frystist vel.  Ég skora á þig að prófa ;-)

Svona geri ég:

Ofninn er hitaður í 220°C, og 22 cm pie form er smurt að innan.

Skelin:  Áður en þú mælir hveitið er gott að hræra í því til að koma lofti í það. Hveiti, salti og sykri er blandað saman í stóra skál og hrært saman með gaffli, til að setja enn meira loft í það.  Smjörlíkið er skorið í bita og síðan er það skorið saman við hveitið með gaffli, stoppað þegar blandan er orðin eins og gróf mylsna, passa að deigið hitni ekki af höndunum.  Einni matskeið í einu, af vatni, er blandað létt saman við deigið með gaffli, þegar deigið kemur saman, er því hnoðað létt saman í kúlu.  Ef þú slítur hana í sundur og hún molnar, vantar aðeins meira vatn, 1-2 msk., betra er að deigið sé aðeins í blautari kantinum, en of þurrt.  Deiginu er skipt í 2 hluta, annan aðeins minni en hinn, þeirri minni er pakkað í past og stungið í ísskápinn, sá stærri fer í botninn.  Á heitistráðu borði, er stærri kúlan rúlluð út í hring, með kökukefli, kantarnir hafðir snyrtilegir.  Best er að rúlla frá miðju í átt að kantinum.  Þegar þú hefur rúllað út í stærðina á forminu + 2-3 cm aukalega, er deiginu rúllað upp á kökukeflið og flutt yfir formið og lagt ofan í það og því þrýst ofan í formið, ekki skera umframdeigið af.  Stungið í frystinn í 1 klst. Þegar búið er að fylla skelina, er minni kúlan tekin úr ísskápnum og  hún rúlluð út á hveitistráðu borði í rúmlega stærðina á forminu.  Kantarni á neðri hlutanum eru bleyttir með  köldu vatni og efri hlutinn lagður ofan á.  Kantarnir eru klipnir eða rúllað vel saman, svo pie-ið opnist ekki í bakstri, snyrt til.  Penslað yfir með smávegis vatni og sykri stráð yfir. Nokkrar loftraufar eru skornar með beittum hníf í lokið.  Það er gott að setja tvöfaldan álpappír undir formið, ef vökvi kemur upp um lofraufarnar, svo það leki ekki í botninn á ofninum.  Stungið í ofninn og bakað í 15 mín., þá er hitinn lækkaður í 180°C og bakað áfram í 25-30 mín. Tekið úr ofninum og látið kólna alveg, svo fyllingin þykkni.  Þegar þú ætlar að bera pie-ið á borð og vilt hafa það volgt, er það hitað í 20 mín á 180°C. Borið á borð með ís eða þeyttum rjóma.

Fyllingin:  Í stórri skál er vel þvegnum og snyrtum rabarbarabitunum blandað mjög vel saman við sykurinn, hveitið og kanilinn og lit ef þú notar hann.  Pie formi er tekið úr frystinum og fyllingunni er hellt í hana (ekki hafa áhyggjur af því ef það er hrúga efst, hún sígur í bakstrinum).

Verði þér að góðu ;-)

Dásamlega gtt og sumarlegt 🥧🪴