Gullmolar

Það sem til þarf er:

F. 4

Í avokadósalatið:

1 búnt kóríander

1 búnt steinselja

1/2 poki klettasalat

2 vorlaukar, fínt saxaðir

1-2 hvítlauksrif, rifin á fíngerðu rifjárni

1 jalapeno, fínsaxað, eins mikið af fræum eins og þér finnst gott (þau eru sterk)

4 tsk. kapers

1/2 tsk. salt

2 msk. rauðvínsedik

1/2 bolli kaldpressuð ólívu olía

4 avokadó, steinninn tekinn úr og þau skræld og skorin í sneiðar

Í gellurnar:

Ca. 1 kg. nýjar, ófrosnar gellur

Hveiti, ca. 1/2 bolli

Fínt salt og nýmalaður svartur pipar

Olía, sem er hlutlaus á bragðið, til að steikja uppúr (ólívu olía hentar ekki)

Ferskt lime, skorið í báta

Kvöldmaturinn kominn!! Ég var mjög sein til að fást til að smakka gellur. GM var alltaf að tala um hvað honum þóttu þær góðar, ég bretti bara upp á nefið, mér þóttu þær frekar óaðlaðandi og vildi þær ekki. En, ég lét tala mig inn á það að smakka. Þegar ég fór til að kaupa fyrsta skammtinn hjá fisksalanum mínum í Mosó, fékk ég líka upplýsingar um hvernig væri best að elda þær. Eftir það varekki aftur snúið, þær hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan. Bara að velta þeim upp úr hveiti og steikja í olíu á pönnu, krydda með salti og pipar og kreista smá af ferskum limesafa yfir og búmm, geggjað!! Gullmolinn úr hafinu. Ég hef verið að þróa meðlætið, en okkur finnst alltaf best að hafa avokadó í sneiðum og ný kreistan limesafa safa með, en þetta avocadósalat sem ég er með hér er æði, ferskar kryddjurtir í bland við piprað klettasalat, hvítlaukur, spicy jalapeno og edik, gera þetta salat hreint frábært meðlæti með gellunum, eða einhverjum öðrum fiski ef ég hef ekki sannfært þig um að prófa þær. ég skora á þig!

Svona geri ég:

Salatið: 1 bolli af heilum kóríanderlaufum er tekinn til hliðar, restin af laufunum ásamt fíngerðu stilkunum er fín saxað og sett í skál. Sama er gert við steinseljuna,1 bolli af heilum steinseljulaufum er tekinn til hliðar, restin af laufunum ásamt fíngerðu stilkunum er fín saxað og sett í skálina með fín söxuðu kóríanderlaufunum. Út í það er bætt söxuðum vorlauk, jalapeno pipar, fín rifnum hvítlauk, helmingnum af kapersinu, gróf söxuðu, salti og rauðvínsediki, síðan er olíunni hrært út í og smakkað til með salti, pipar og ediki. Heilu kryddlaufunum sem voru tekin til hliðar, ásamt klettasalatinu er blandað saman og raða fallega á fat. Avokadóin eru skorin í tvennt, steinninn tekinn úr og kjötið tekið úr hýðinu með því að renna skeið undir það og lyfta ávextinum svo upp úr hýðinu. Helmingarnir eru síðan skornir í miðlungs þykkar sneiðar, sem er raðað ofan á kryddlaufin. Dressingunni er svo hellt yfir avokadóið og í lokin er restinni af kapersinu dreift yfir, ásamt grófum sjávarsalt flögum og nýmöluðum svörtum pipar.

Gellurnar: Hveitið er sett í stóra skál, ca. 1/2 bolli. Gellunum er velt upp úr hveitinu, svo þær séu vel þaktar. Olía, ca. 1/2 cm lag, er hitað á nokkuð háum hita á stórri rúmgóðri pönnu. Gellunum er raðað á pönnuna og steiktar án þess að hreyfa við þeim, þar til þær eru orðnar ljósbrúnar, saltaðar og pipraðar. Síðan er gellunum snúið við á pönnunni, það þarf örugglega að bæta olíu við á pönnuna, síðan er salt og piprað og gellurnar steiktar án þess að hreyfa þær, þar til þær eru orðnar gylltar. Þeim er svo snúið varlega einu sinni eða tvisvar í viðbót þar til þær eru orðnar vel gullnar, stökkar og gegn steiktar, ca. 10 mín. Bornar sjóðandi heitar á borð með salatinu og lime bátum.

Verði þér að góðu :-)

Gullmolar úr hafinu 🐟💦