Kjötbollur og grænt í ofni með hvítlauksbrauði

Það sem til þarf er:

F. 4-6

Í bollurnar:

1/2 kg. nautahakk, eða annað hakk sem þú vilt

1/2 kg. nýtt kjötfars

1 solo hvítlaukur, fín rifinn 

1 laukur, rifinn eða fínsaxaður

1 tsk. sjávarsalt

1/2 tsk pipar

1/2 tsk. paprikuduft

1/2 tsk. Montréal seasoning

1/2 tsk. Hamburger sesaoning

Grænt á plötuna:

1 box kirsuberjatómatar 

1 poki broccolini greinar, eða venjulegt skorið í lengjur

1 box sveppir

1/4 bolli ólívu olía

1 1/2 tsk. oreganó

1 tsk. rauðra piparflögur

100 gr. fín rifinn Parmesan ostur

Á brauðið:

2-3 langlokubrauð eða 1 snittubrauð

2 sóló hvítlaukar, fín rifnir

Ólívu olía

Vikan er að byrja eftir mestu og lengstu súkkulaðihátíð ársins, páskana.   Sem betur fer er vikan stutt, svo maður fer rólega af stað inn í venjulegan ritma.  Það er gott að fá venjulegan mat, eftir veislumat síðustu daga, mat sem er fljótlegt að útbúa og koma á borðið.  Hér er á ferðinni mjög góður kvöldmatur, tekur enga stund að gera, er hollur og nærandi.  Njóttu vikunnar 😊

Svona geri ég:

Bollur og grænt:  Ofninn er hitaður í 200°C.  Ofnskúffan gerð klár, smá olíu er smurt í botninn á henni.  Hakki og farsi er blandað saman í stóra skál.  Laukarnir eru rifnir eða skornir fínt og blandað út í það ásamt kryddunum.  Bollur eru mótaðar úr deiginu, með desertskeið eða smáköku skammtara (hún er eins og ísskammtari, bara minni) þú færð ca. 35-40 litlar bollur úr deiginu.  Þeim er dreift jafnt í skúffuna.  Grænmetið er þvegið vel og skorið, ef þarf, í huggulegar stærðir, samt ekki of smátt.  Því er svo dreift á plötuna á milli bollanna.  Olíunni er drussað yfir, ásamt kryddinu og helmingurinn af ostinum rifinn yfir.  Stungið í ofninn og bakað í 20 mín.  Þá er bollunum snúið og restinni af Parmesan ostinum dreift yfir og brauðið lagt ofan á bollurnar og bakað áfram í um 20 mín.  Borið fram með hvítlauksbrauðinu og auka rifnum Parmesan osti.

Brauðið:  Brauðið er klofið eftir endilöngu og hvítlaukurinn er nuddaður inn í skorna flötinn og olíu dreift yfir.  Ská skorið í  3-4 bita, fleiri ef þú ert með snittubrauð.  Þegar þú er búin, að snúa bollunum er brauðinu stungið ofan á bollurnar og það bakað með bollunum.  Ef það er tilbúið áður en bollurnar eru klárar, er brauðið tekið úr ofninum og pakkað í álpappír til að halda því heitu.

Verði þér að góðu :-)

Kjötbollur og grænt

Hvítlauksbrauðið

Hvaða dag sem er 😊