Jarðarberjasulta

Það sem til þarf er:

ca. 5 litlar krukkur

400 gr. sultunarsykur með pektíni

1 sítróna, safi og börkurinn, fínrifinn

650 gr. jarðarber

Engin búðasulta er kemst með tærnar þar sem þessi er með hælana.  Ef þú ert svo heppin að vera með fullan garð af jarðarberjaplöntum og ert í vandræðum með að nýta berin, er þetta frábær leið.  En ef þú ert eins og ég, og þarft að kaupa þín ber, er það allt í þessu fína, sultan er samt best af öllum ... :-)

En svona er hún gerð:

Berin eru hreinsuð, stilkurinn tekinn af og þau þvegin og skorin í tvennt, eða í stóra bita (fer eftir stærð).  Sykur, sítrónusafi og fínrifinn börkurinn er sett í pott og látið malla við mjög lágan hita í 10 mín., eða þar til sykurinn er bráðinn.  Þá eru berin sett útí og látið malla saman í 20 mín. við lágan hita, þar til berin eru meyr og farin að gefa frá sér vökva.  Það er gott að athuga hvort sultan er mátulega þykk með því að setja 1 tsk. af vökvanum á kaldan disk og láta hann renna um diskinn, ef hann hleypur strax er sultan tilbúin.  Úr þessari uppskrift færðu 5 litlar krukkur.  Krukkurnar eru fylltar alveg í topp og er hringur úr smjörpappír sniðinn í hverja krukku og lagður ofaná maukið, svo er krukkunni lokað vel og hún geymd á hvolfi þar til hún er alveg köld.  Geymist í kæli.

Svona sótthreinsa ég krukkur:

Ég hita ofninn í 150°C.  Nýþvegnum krukkum og lokum er raðað í ofnskúffu og þær bakaðar í ofninum í 20 mín.  Sultunni er ausið sjóðheitri í krúkkurnar.

ATH.  Passa puttana, sultan og krukkurnar eru heitar!

   Ég á ekki orð, hún er svo góð   💞🍓