Shérrý frómas

Það sem til þarf er:

f. 4-6

3 lítil egg

100 gr. sykur

4 blöð matarlím

1/2 dl sætt Sherrý (Bristol Cream)

2 1/2 dl rjómi + meira til að skreyta- og bera fram með

Jæja, þá er það jólaeftirrétturinn sem ég held uppá mest af öllum. Á Þorláksmessu, þegar ég er búin að hella frómasinum i spariskálina, skil ég alltaf pínu rest eftir í hrærivélaskálinni, bara fyrir mig. Ég skammast mín ekkert fyrir að nota puttann fyrir sleikju ;-) og hreinsa innan úr skálinni uppí mig. Smá forskot á sæluna fyrir kokkinn :-) Ég er svo vanaföst á jólunum, að ég nota t.d. eiginlega alltaf sömu litlu plast skógarhöggsmennina, sem ég keypti fljóltlega eftir að ég fór að búa, sem skraut á frómasinn og geri enn... hér tala ég um alvöru vanafestu ;-)

Svona geri ég frómasinn:

Ég byrja á því að setja skálina sem ég ætla að bera frómasinn fram í, í ísskápinn svo hræran kólni sem fyrst. Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskápnum. Matarlímið er lagt í bleyti í kalt vatn, þar til það er alveg lint. Vatninu er hellt af því, og það brætt í skáli yfir vartnsbaði. Þegar það er alveg bráðið er skálin tekin af hitanum og Sherrýinu er blandað útí það. Egg og sykur eru þeytt létt og ljós í hrærivélinni. Ég hræri nokkrar skeiðar af eggjahrærunni útí Shérrýblandaða matarlímið, til að kæla það rólega, og helli svo restinni í gegnum sigti útí (engir kekkir) og blanda því vel saman. Þeytta rjómanum er síðan blandað rólega saman við. Hellt í ískalda skálina og látinn stífna í ísskápnum, án þess að breyða yfir hann í ca. 1 klst. Þá set ég plastfilmu yfir skálna, þar til hann er alveg stífur og ég skreyti hann með þeyttum rjóma, glimmeri og öllu sem mér dettur í hug í það skiptið.

Gleðileg jól :-)

GLEÐILEG JÓL