Töffarinn á jólaborðinu

Það sem til þarf er:

Ca. 1.8 - 2.0 kr. hangilæri á beini

Þetta verður það sem vekur umtal hjá fjöllunni og þú verður spurð "Hvað gerðir þú við hangikjötið", er það tvíreykt eða... hvað er búið að gera við það?  Að bera hangikjöt fram matreitt á þennan hátt er snilld.  Ég fékk þessa uppskrift hjá frænku minni fyrir fjöldanum öllum af árum og þetta er með því vinsælla sem ég ber á borð fyrir mitt fólk.  Um leið og dæturnar koma inn, er spurt:   Er til hangikjöt?  Yfirleitt er búið að setja lærið á standinn og hnífinn í.  Svo standa þær við hangilærið og tálga í sig þunnar ræmur af þessari mestu dásemd.   Ég get sagt þér það í trúnaði, að það hefur stundum legið við slagsmálum við standinn, þegar lítið er eftir að kjöti.  Þessi aðferð við matreiðslu á hangikjöti er ekki til að borða með uppstúf og rauðkáli, heldur sem nart eða smárétt, eins og tvíreykt hangikjöt eða Parma skinku.  Það er skorið í þunnar ræmur og borðað með laufabrauði og köldu smjöri eða piparrrótarrjóma.  

En svona geri ég:

Kvöldinu áður en þú ætlar að nota kjötið, er hangikjötið skolað undir bunu af rennandi köldu vatni.  Eldhúsvaskurinn er þrifinn vel að innan, svo er hangilærinu stungið ofan í vasinn og hann fylltur af köldu vatni þar til flýtur vel yfir lærið.  Lærið er látið vera í vatninu í vaskinum yfir nóttina.  Þegar þú ert tilbúin til að elda það, er vatnið látið renna vel af því og það þerrað.  Lærinu er pakkað vel inn í álpappír og því stungið í kaldan bakarofninn og hitinn stilltur á 150°C og klukkan á 1 1/2 klst.  Þegar klukkan hringir, er hangikjötið tekið úr ofninum og það látið kólna alveg, á grind í álinu (3-4 tíma).  Sett á fat eða á stand og nokkrar sneiðar skornar niður og lagðar hjá, en annars er hnífurinn skilinn eftir hjá kjötinu svo fólk geti bjargað sér sjálft.  Laufabrauð með kúmeni, kalt smjör, frosið Jólabrennivín og jólabjór, að þínu vali borið fram með.  Ef kjötið klárast ekki allt, geymist það vel í ísskáp.  Venjulega þegar ekki eru gestir, tek ég hangilærið fram og set á standinn á milli 17:00 og 19:00 á kvöldin, svo það sé hægt að fá sér smá hangikjöt og laufabrauð, dagana fyrir jól. Þess á milli er því pakkað í plast og stungið í ísskápinn, þannig geymist það í viku.

Verði þér að góðu :-)

Best af öllu 😘