Marineraður fetaostur

Það sem til þarf er:

100 gr. svartar ólífur

100 gr. grænar ólífur

1 lítil óvöxuð lífræn sítróna, skrúbbuð og skorin í næfurþunnar sneiðar

1 hvítlauksrif í næfurþunnum sneiðum

1 lítið rautt chili, fínsaxað, með fræunum ef þú ert eldhugi :-)

Ferskar timiangreinar

125 ml extra virgin ólífuolía

100 gr. fetakubbur í bitum

1-2 lárviðarlauf

Gott að hafa með:

Helgarnammið undirbúið... Ég veit ekki hvað ég hef gert þessa uppskrift oft, osturinn er frábærlega góður sem nart eða til að nota hann útí salat eða ofaná pizzu.

Svona geri ég:

Osturinn er skorinn í bita. Vökvinn er látinn leka vel af ólífunum og sítrónan er skorin í eins þunnar sneiðar og þú getur og sneiðarnar síðan skornar í 4 hluta. Ólífuolían er sett í skál eða víða krukku og öllu blandað varlega saman. Látið marinerast í ísskáp í allavega 24 tíma. Það er gott að hræra varlega í ostinum 1 sinni á meðan. Geymist í kæli ca. 3-4 daga. Það er dásamleg samsetning að bera ostinn fram um leið og smjörbauna hummus með rósmarín pítabitum.

Verði þér að góðu :-)

Elskann :-D