Bjórsoðnir villigæsaleggir með bláberjum og baconi

Það sem til þarf er:

F. 3-4

4-6 læri og leggur af villigæs

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Hveiti til að velta leggjunum uppúr

1 msk. olía til að steikja uppúr

3 laukar, skrældir og skornir í sneiðar

4 sneiðar bacon, skorið i bita

4 hvítlauksrif

1 tsk. timian

3 bollar af uppáhalds bjórnum þínum (má nota kjúklingasoð)

250 gr. bláber

Meðlæti:

500 gr. rauðar nýjar kartöflur

1-2 msk. smjör

Parmesan, rifinn

Rifin múskathneta

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

P.s.:  Ef þú ert á Keto eða ert að spara við þig kolvetnin, er hægt að skipta kartöflunum út fyrir blómkál og bæta kannski smá rjómaslurk við, en að örðu leyti er uppskriftin eins.

Ég var svo lánsöm að vinur gaf mér nokkra villigæsa leggi.  Mér fannst ótrúlega spennandi að prófa þá þar sem ég elda villigæs ekki oft. Ég fann þessa uppskrift, sem mér leyst mjög vel á.  Ég breytti henni eftir mínum smekk og hún sló heldur betur í gegn hjá okkur Guðjóni. Ef þú eða þínir eru í veiði er tilvalið að prófa þennan rétt, þú verður ekki svikinn af honum.

Svona gerði ég:

Leggirnir eru snyrtir, saltaðir og pipraðir og síðan er þeim velt upp úr hveitinu, en umfram hveitið er hrist af þeim.  Olían er hituð í djúpri pönnu með loki, sem er passleg fyrir leggina. Baconið er brúnað á pönnunni og þegar það er tilbúið er það tekið upp úr og sett til hliðar og geymt.  Leggirnir eru brúnaðir í feitinni á pönnunni, síðan eru þeir teknir upp úr og laukurinn steiktur í feitinni, þar til hann er glær og meyr, ca. 4 mín.  Leggjunum, hvítlauk, timian og bjór/soði (nóg til að fljóta vel yfir leggina) er bætt útí.  Lokið er sett á pönnuna og soðið rólega í 35-40 mín., þar til leggirnir eru gegnsoðnir og meyrir (gætu þurft lengri tíma ef þeir eru stórir). Teknir upp úr og haldið heitum á meðan sósan er soðin niður.

Kartöflurnar:  Kartöflurnar eru soðnar í 10-15 mín., eftir stærð.  Þær eru skrældar og maukaðar með töfrasprota, ásamt smjörinu og parmessan osti.  Kryddað til með múskathnetu, salti og pipar. Borin fram með leggjunum, baconi, bláberjum, maukuðum kartöflum og nokkrum skeiðum af soði og lauk.

Verð þér að góðu :-)

Villt 🪶