Súkkulaðiegg með hvítsúkkulaði mousse

Það sem til þarf er:

f.  ca 8-10

Í  súkkulaðieggin:

8-10 vatnsblöðrur eða litlar venjulegar blöðrur

150 gr. dökkt súkkulaði, saxað

Í hvítsúkkulaði moussina:

250 gr. hvítt súkkulaði

2 msk. ósalt smjör

1 1/4 bolli mjólk

3 stórar eggjarauður

3 msk.  sykur

2 msk. maismjöl

3 blöð matarlím, mýkt upp í köldu vatni

1 bolli rjómi, þeyttur

Þegar ég var í Árósum um daginn gerðum við Inga dóttir mín svona súkkulaðiegg í eftirrétt fyrir okkur öll, til að setja punktinn yfir Iið á yndislegri steikarmáltíð.   Stökkt dökka súkkulaðið í eggjunum með hvítsúkkulaði moussinni var hreinn unaður :-)  Það er miklu minna mál að gera þennan efirrétt en sýnist.  Eggin má gera 1-2 dögum áður, en ekki geyma þær í ísskáp, heldur á svölum stað undir plasti.

En svona gerum við:

Bakki með bökunarpappír er gerður klár.  Súkkulaðieggin eru gerð þannig, að blöðrurnar eru blásnar upp í stærð sem þér finnst hæfileg, ca. eins og tebolli, og hnýtt fyrir endann á þeim.  Þær eru síðan stroknar með rökum klút og látnar þorna. Dökka súkkulaðið er brætt í vatnsbaði, og mesti hitinn látinn rjúka úr því.  Blöðrunum er síðan dýft í súkkulaðið og þeim velt í því svo það myndist einskonar túlípana mynstsur.  Það er gott að vera með litla sleikju til að strjúka súkkulaðið yfir og jafna það út.  Húðuðu blöðrurnar eru síðan settar á bakkann þar til súkkulaðið er alveg harðnað.  Þá er blaðran stungin með nál við hnútinn og loftið látið leka rólega úr henni.  Ekki hjálpa til :-) :-)

Hvítsúkkulaði moussin: 

Matarlímið er lagt í bleyti í kalt vatn.  Hvíta súkkulaðið og smjörið er sett saman í skál, með sigti ofaná.  Mjólkin er hituð í meðalstórum potti, rétt að suðu. Í annarri skál eru eggjarauður, sykur og maismjöl þeytt saman og heitri mjólkinni þeytt útí eggjablönduna, því er svo hellt í pottinn aftur og þeytt þar til blandan þykknar, ca. 4 mín.  Tekið af hitanum.  Vatnið er kreyst úr matarlíminu og því hrært útí þar til það uppleyst.  Blöndunni er hellt í gegnum sigti yfir hvíta súkkulaðið og smjörið og hrært í þar til súkkulaðið er bráðið, kælt í stofuhita.  Rjóminn er þeyttur og blandað varlega saman við súkkulaðið og kæl í ísskáp í nokkra tíma.  Má gera daginn áður, en setja saman samdægurs.

Til að bera fram:

Hvítsúkkulaði moussin er sett í sprautupoka með stórum stút og henni sprautað jafnt í eggin.   Skreytt með sköfnu dökku súkkulaði og hindberjum. Geymt í ísskáp þar til þú vilt bera réttinn á borð.  

Enjoy...... 

Páskalegt og fallegt 🐣