Toffý og jarðarberja mess

Það sem til þarf er:

F. 4-6

170 gr. Hobnob kexkökur

75 gr. smjör, brætt

400 gr. jarðarber, þvegin og skorin í sneiðar

1 peli rjómi,

200 gr. grísk jógúrt

10 rjóma karamellur

Flórsykur

Þetta er frábær slakur heimilisdesert, hann er upplagður til að bjóða uppá eftir góðan helgarmat, án þess að hafa mikið fyrir. Kakan er svolítið laus í sér, svo það er gott að hafa skeið eða spaða með hnífnum, þegar maður sker sér sneið.

Svona geri ég:

Kexið er malað fínt í blandara eða barið í sterkum plastpoka með buffhamri eða kökukefli. Smjörið er brætt í potti og blandað saman við kexmulninginn. 20 cm lausbotna form, er klætt í botninn með bökunarpappír og upp með hliðunum. Kexblöndunni er þrýst ofan í botninn á forminu. Stungið í kæli í 30 mín., til að stífna. Tekið úr korminu og sett á kökudisk. 4 msk. af rjóma eru teknar til hliðar og settar í lítinn pott. Karamellurnar eru settar út í rjómann og bræddar í honum, látið kólna. Restin af rjómanum er þeyttur og jógúrtinni blandað saman við hann. Sett í huggulega hrúgu á miðjan botninn, jarðarberjunum dreift yfir, síðan er karamellunni drussað yfir og síðast er flórsykur hritur yfir allt.

Verði þér að góðu :-)

Messy nammi 🍓