Lamba hot pot með rófuloki

Það sem til þarf er:

F. 4

1 msk. ólívu olía

1 stór rauðlaukur, í þunnum sneiðum

2 hvítlauksrif, söxuð

4 lærissneiðar, með beini, eða framhryggur

4 greinar af fersku timían

2 tsk. maismjöl

1 dl rauðvín

2 msk. bláberjasulta eða trönuberjasulta

1 stór rófa, um 650 gr., skræld og skorin í 6 bita

2 dl heitt vatn

2 1/2 tsk. Oskar lambakraftur

Oh, þetta er svo þægilegur og kósí matur. Það er svo gott að geta skutlað einhverju góðu í pott og látið það malla rólega í ofninum á köldum vetrardegi. Lamb er svo gott til að hægelda og rófurnar passa svo vel með. Það er ekkert flókið í þessari uppskrift, svo endilega prófaðu :-)

Svona geri ég:

Rófubitarnir eru soðnir í söltu vatni í 10 mín. Vatninu er hellt af og þær látnar kólna á meðan þú býrð til réttinn. Ofninn er hitaður i 180°C. Olían er hituð á meðalhita, á pönnu sem má fara í ofninn, eða á venjulegri pönnu, en þá þarftu eldfast mót til að klára réttinn. Laukurinn og hvítlaukurinn er látinn malla í um 5 mín., þar til laukurinn byrjar að taka á sig lit, tekið af hitanum. Lærissneiðarnar eru kryddaðar með salti, pipar og timian og lagðar ofan á laukinn og restin af timian greinunum eru lagðar ofan á. Maís mjölið er hrært út með smávegis af rauðvíninu, síðan er restinni af því hrært saman við, ásamt sultunni og vökvanum er svo hellt yfir kjötið. Rófurnar eru skornar í þunnar sneiðar með mandólíni og raðað fallega ofan á kjötið og yfir alla pönnuna. Smjörið er klipið í litla bita og dreift yfir rófurnar ásamt svolitlu salti. Heita vatninu og kraftinum er blandað vel saman og hellt í pönnuna. Smjörpappírs hringur er lagður ofan á pönnuna og síðan er pönnunni lokað alveg með álpappír. Bakað í ofninum í 1 klst., þá er pappírinn allur tekinn af og bakað áfram í um 20 mín., eða þar til rófurnar eru farnar að taka lit og ristast á jöðrunum.

Verði þér að góðu :-)

Kósý vetrarmatur 🌬️🍂🍴