Mille-feuille með hindberjum og möndlum

Það sem til þarf er:

Um það bil 7 samsett stk.

330 ml mjólk

4 eggjarauður

110 gr. sykur

2 msk. hveiti

1 msk. Mais mjöl

1 tsk. vanilludropar

50 gr. smjör

1 msk. hunang

55 gr. ristaðar möndluflögur, muldar mili fingra

2 blöð filo deig

180 ml. rjómi

300 gr. hindber

Mille-feuille þýðir þúsund lauf og vísar til „þúsund laganna“ sem myndast þegar smjördeig lyftist og bakast en kakan er oftast bökuð úr smjördeigi. Ég nota hinsvegar filo-deig hérna sem mér finnst skemmtileg tilbreyting, það er svo stökkt og ekki eins matarmikið og smjördeig, sérstaklega ef kakan er notuð sem eftirréttur. 

En svona gerum við:

Mjólkin er hituð í potti. Hrærið saman í skál eggjarauðum, sykri, hveiti, mais-mjöli og vanillu og þeytið heitri mjólkinni rólega samanvið. Blandan er sett í pottinn og hituð þar til hún fer að malla og þykkna. Þá er hún sett í skálina aftur, hulin með plast filmu og kæld í allavega 1 klst. Rjóminn er þeyttur og blandað varlega saman við eggjakremið.  Ofninn er hitaður í 180-200°C. Möndluflögurnar eru settar á álpappír og ristaðar í 3-5 mínútur, kældar. Smjör og hunang er hitað saman í potti.  Annað blaðið af filo-deiginu er lagt á klædda bökunarplötu og smurt með hunangs smjörinu og möndlum drussað yfir, þá er hitt blaðið lagt ofan á, smurt aftur og möndlurnar efst.  Filo-deigið er reitað niður í 7x7cm ferninga og skorið vel í deigið. Bakað í um 5 mínútur eða þar til filoið er gyllt, kælt. Þetta má gera daginn áður.

Samsetning:

1 ferningur af filo-deigi settur á disk og ein kúfuð matskeið af eggjakremi sett á hann, síðan hindber og deigferningur, síðan er þetta endurtekið. Það er fallegt að drussa flórsykri yfir kökuna og útá diskinn í lokin.

Verði þér að góðu :-)

          Svo fallegt og gott 🍒