Sætur engifer ís
Það sem til þarf er:
f. 4-6
4 egg, aðskilin
100 gr. flórsykur
3 dl rjómi
6 kúlur engifer í sýrópi
Þessi ís er gamall og góður í mínu vopnabúri. Uppskriftin er úr allra fyrsta matarblaðinu sem ég keypti mér, og það er eiginlega lengra síðan en ég kæri mig um að rifja upp ;-) En, hann er jafn yndislegur í munni núna eins og hann var þá. Mér finnst þessi grunnur af ís mjög góður, hann er léttur í sér vegna þess að eggjahvíturnar eru stífþeyttar og flórsykrinum hrært útí þær, eins og í marens. Ég hef notað grunninn með ýmsu öðru útí, t.d. súkkulaði og ristuðum hnetum eða ávöxtum, svo er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni :-)
En vindum okkur í ísgerð:
Eggjahvíturnar eru stífþeyttar, flórsykrurinn er þeyttur útí í smátt og smátt. Eggjarauðurnar eru þeyttar létt og síðan hrærðar varlega útí með sleikju. Rjóminn er þeyttur þar til hann myndar mjúka toppa, þá er honum hrært varlega útí eggin. Hrærunni er hellt í frostþolið mót, og fryst í 40-50 mín. 4 engiferkúlur eru fínsaxaðar, og þeim hrært varlega saman við eggjarjómann þegar hann er farina að stirðna útí köntunum. Þá er boxið sett aftur í frystinn og fryst þar til hann er orðinn gegnfrosinn. Mér finnst alltaf gott að taka boxið úr frystinum og setja það í ísskápinn ca. 30 mín. áður en ég ætla að bera hann fram svo hann sé ekki alltof harður og ómeðfærilegur. Síðustu 2 engiferkúlurnar eru svo skornar í fína strimla og dreyft yfir ísinn ásamt sýrópi úr krukkunni, þegar hann er borinn á borð.