Duck à l'Orange

Það sem til þarf er:

F. 3-4

4 andabringur

Sjávarsalt og ný malaður svartur pipar

2 msk. appelsínu marmelaði

Meðlæti:

Appelsínu sósa

Trönuberja- og peru chutney

Jóla eplasalat

Stök kartöflugratín

Duck à l'Orange, hefur töfra ljóma yfir sér, í mínum huga, frá fornu fari.  Í mínum unga huga var þessi réttur toppurinn á franskri fágun og elegans, sem hann er að vissu leiti ennþá.  Hvað sem því líður er Duck à l'Orange, dásamlega góður matur og það er lítið mál að búa hann til.  Sósuna er hægt að gera fyrir fram, ásamt meðlætinu.   Þá er bara eftir að steikja bringurnar, þegar á að fara að borða.  Ég ber öndina venjulega fram með dásamlegu appelsínusósunni, Jóla eplasalati og Trönuberja- og peru chutney, ég sleppi kartöflum.  Endilega prófaðu ;-)

Svona geri ég:  

Ofninn er hitaður í 110°C.  Andabringurnar eru afþýddar og þerraðar vel.  Ég læt þær standa óvarðar á borðinu í 2-3 tíma áður en ég steiki þær.  Þá eru skornar nokkrar rákir í skinnið, á ská og bringurnar settar á pönnuna kalda, á meðan pannan hitnar upp í meðalhita og eru bringurnar steiktar, án þess að snúa þeim, í ca. 5 mín., á meðan fitan bráðnar af þeim og húðin verður stökk.  Á meðan er kjöthliðin, sem snýr upp, krydduð með salti og pipar.  Bringunum er  snúið og þær steiktar i um 5 mín. á kjöthliðinni, og húðin krydduð með salti og pipar.  Þá eru þær teknar af pönnunni og settar á ofnplötu og stungið í ofninn í 20 mín.  Appelsínu marmelaði er brætt í potti, og þegar bringurnar eru teknar úr ofninum, er marmelaðinu penslað á þær, síðan eru þær látnar jafna sig í 10 mín., áður en þær eru skornar í meðalþykkar sneiðar og bornar á borð, með appelsínusósunni og öðru meðlæti.

Verði þér að góðu ;-)