Rækjubrauðterta

Það sem til þarf er:

1 stk.

1 stk. langsumskorið brauðtertubrauð

300 gr. majones + meira til að smyrja tertuna að utan með

1 dós sýrður rjómi, 18%

Fínrifinn börkur af 1/2 sítrónu og smá safi

1 tsk. Dijon sinnep

Aromat, paprikuduft, Herbamare

500 gr. rækur, afþýddar

1/2 rauð paprika, mjög fínt skorin

6 harðsoðin egg, stöppuð

1 lítil lúka fersk steinselja, fínsöxuð

Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Skraut:

Soðnar og kældar risarækur

Salatlauf, gúkra, tómatar, mini paprikur, egg, kavíar, fersk steinselja eða dill

Þegar ég horfi fránum augum yfir kökuhlaðborð, þá er ég að reyna að spotta brauðréttina, sérstaklega rækjubrauðtertuna.  Um leið og hún er í sigtinu, er tekin mjög ákveðin stefna á hana með diskinn að vopni.  Ef hún er góð, er engin spurning,  ég fer aðra ferð að borðinu til að heimsækja hana aftur.   Ég elska góða rækjubrauðtertu og ég er örugglega ekki ein um það.  Þessi uppskrift er  fengin af Bland, ég veit ekkert hver á hana....?  En, hún er mjög góð og ég er búin að setja mitt tvist á hana, eftir að hafa búið hana til ótal oft.  Svo, ta da... þetta er mín útgáfa af rækjubrauðtertunni.  Svo er hún skreytt, eftir listfengi hvers og eins.  Endilega prófaðu ;-)

Svona geri ég:

Rækjurnar eru afþýddar og sem allra mesti vökvinn pressaðurvel úr þeim svo salatið verði ekki of blautt.  Eggin eru harðsoðin, kæld og skræld.  Majónes og sýrður rjómi er hrært saman í skál, ásamt sinnepi og kryddað til með Aromat, smá paprikudufti og Herbamare.  Rifni sítrónubörkurinn er hrærður út í og kannski nokkrir dropar af sítrónu safa.  Eggin er stöppuð vel með gaffli og hrærð út í, ásamt paprikunni og steinseljunni.  Hrært vel saman, síðan er rækjunum blandað út í og smakkað til með meira kryddi, salti og pipar ef þarf.  Salatinu er jafnað á 3-4 lög af brauði, síðan eru þau lögð saman og brauð sett ofan á.  Kanturinn er skorinn af öllum hliðum, með beittum brauðhníf.  Aflangur diskur er gerður klár og nokkrar doppur af majónesi settar á botninn á honum, svo tertan renni ekki til á honum á meðan þú skreytir  hana.  Á þessu stigi er ekkert mál að setja vel af plasti yfir hana og geyma hana í ísskápnum í 1-2 daga.  Tertan er smurð að utan með majónesi og síðan er hún skreytt eins og þér finnst fallegast.  Borin á borð og notið.

Verði þér að góðu ;-)

Love it 🍋🦐