Þriggja bolla kjúlli 

"Sanbeiji"

Það sem til þarf er:

F. 4

1 kg. kjúklingalæri, úrbeinuð og skorin í bita

1 msk. matarsódi

3 msk. sesamolía

6-7 cm. engiferrót, skorin í tæpl. 1/2 cm skífur

4-5 sóló hvítlaukar, skornir í 4 báta hver

4 vorlaukar, skáskornir í  2 cm bita

1 stórt rautt chili, smátt skorið

1 msk. ljós púðursykur, eða hrásykur

1.2 dl þurrt Sherrý (Tio Pepe) eða Shaoxing, kínversk hrísgrjónavín ef þú átt það, eða Mirin (fæst í stórmörkuðum)

1.2 dl soja sósa, með lágu saltinnihaldi

1 búnt fersk basil lauf, gróft söxuð

Nú skaltu rífa wokinn þinn fram og prófa þennan rétt.  Þessi dásamlegi kjúklingaréttur er frá Taívan. Það eru víst til óendanlega margar útgáfur af honum, hvert heimili á sína "uppáhalds" útgáfu, svipað og við eigum með okkar uppáhalds íslensku rétti.  Á frummálinu er hann kallaður Sanbeiji, eða þriggja bolla kjúklingur, hann á sér langa sögu, sem eru til nokkrar útgáfur af.  En, hvað sem því líður er ekkert mál að búa hann til, þú ert ca. 30 mín að koma matnum á borðið og hann er truflað góður.  Best er að hafa allt klárt þegar þú byrjar að steikja. Rétturinn tikkar í öll boxin, svolítið sætu/spicy með ilmandi kínverskum kryddum og fersku basil, borinn á borð með hvítum hrísgrjónum.  Þú átt eftir að búa þennan til oftar en einu sinni ;-)

Svona geri ég:

Kjúklingalærin eru úrbeinuð og hvert skorið í ca. 6-8 bita eftir því hversu stór þau eru. Bitarnir eru settir í skál og velt upp úr matarsódanum og látnir liggja í honum í 10 mín.  Þá eru matarsódinn skolaður af og bitarnir þerraðir.  Engiferið er skorið í skífur, hvítlaukurinn í báta, vorlaukurinn skáskorinn í bita og chiliið smátt skorið.  Sesamolían er hituð í wok eða á pönnu.  Þegar hún er heit, er engifer, hvítlaukur, vorlaukur og chili steikt á meðalhita í nokkrar mínútur þar til kryddin eru ilmandi og engiferinn farinn að meyrna.  Þá er kryddunum ýtt til einnar hliðarinnar á pönnuna og kjúklingurinn bætt á hana og hann steiktur í 7-10 mín., þar til hann er farinn að brúnað aðeins, velt um pönnuna á meðan.  Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og hrært í á meðan, síðan er soja og hrísgrjónavíninu bætt út á pönnuna, ég notaði Tio Pepe sherrý, af því ég átti það. Suðan er látin koma upp og látið malla í ca. 15 mín., eða þar til vökvinn hefum soðið niður og orðinn síróps kenndur.  Tekið af hitanum og basillaufunum blandað saman við.  Smakkað til og borið á borð með hvítum soðnum hrísgrjónum.

Verði þér að góðu :-)

Sticky/spicy-dásemd 😃