Brokkolísúpa & osta/timían croutons

Það sem til þarf er:

F. 3-4

1 msk. smjör

1 sóló hvítlaukur, saxaður

1 skarlottulaukur, eða 1/2 lítill laukur saxaður

1 stór stilkur brokkolí

1/2 tsk. pipar

2 1/2 bollar bragðmikið kjúklingasoð

Rjómi, smá slurkur ef þú vilt

Er það bara ég, eða lendir þú í því að kaupa brokkolíhaus sem dagar upp í ísskápnum? Er orðinn gulurleytur og frekar óspennandi... Ég vil ekki henda mat sem ég er búin að kaupa, þess vegna getur það verið áskorun að búa til eitthvað áhugavert og gott áður en það er um seinan. Súpur eru dásamlegar til búa til nærandi mat sem nýtir allskonar smávegis sem er í ísskápnum. Svo eru það allir brauð- og ostaendar, sem eru stundum í skápnum... ó mæ. Croutons, auðvitað!! Súpan og brauðteningarnir eru frábær máltíð og tekur enga stund að búa til og þú þarft ekki að fara út í búð!! Gamli brokkolíhausinn og brauðendinn fá "make over" og slá í gegn á matarborðinu ;D

Svona gerði ég:

Brokkolíhausinn er þveginn vel og laufið skorið af honum. Hausinn er skorinn í meðalstóra bita, laukur og hvítlaukur er saxað. Smjörið er brætt i stórum potti og laukurinn og hvítlaukurinn er steikt á meðalhita í smástund ca. 1 mín. Þá er brokkolíinu bætt út í og steikt áfram í smástund. Þá er soðinu bætt út í pottinn ásamt pipar og soðið undir loki í 15 mín., kælt aðeins. Hellt varlega í blandara eða í matvinnsluvél og maukað þar til súpan er alveg flauels mjúk. Smakkað til með salti og pipar. Ef þú vilt eða átt rjóma í ísskápnum er mjög gott að setja smá slurk út í og blanda vel saman við. Borin á borð eins og hún er, eða með osta/timian croutons, sem er æði!

Verði þér að góðu :-)

Bingó..... 😍