Brómberja- og epla crumble
Það sem til þarf er:
f. 8
3 rauð Royal gala epli
2 græn Cox epli
Safi af einni sítrónu
200 brómber, frosin eða fersk (ég notaði frosin blönduð skógarber)
100 gr. hrásykur
4-5 negulnaglar
1/2 tsk. malað engifer
200 gr. marsipan
Mulningur:
200 gr. kalt smjör
250 gr. hveiti
50 gr. hrásykur
75 gr. möndlur með hýði, saxaðar
1 tsk. kanell
Fínrifinn börkur af 2 sítrónum
Meðlæti, eitthvað af þessu:
Eggjakrem (custard)
Góður vanillu ís
Þeyttur rjómi
Volg berja- og epla crumble, með ís eða þeyttum rjóma, er eitthvað sem tilheyrir haustinu að mínu mati. Tilvalin með sunnu-dagskaffinu eða sem eftirréttur, þegar þannig stendur á. Einföld og æðisleg!
Svona geri ég:
Ofninn er hitaður í 200°C. Eplin eru kjarnhreinsuð, skræld og skorin í bita og sett í eldfast mót sem tekur rúml. 1.5 L. Safinn úr sítrónunni er kreistur yfir og honum blandað varlega saman við eplin og að lokum er berjunum blandað útí, ásamt sykrinum og kryddinu.
Mulningurinn: Köldu smjörinu er nuddað saman með hveitinu svo það líkist grófri mylsnu. Sykrinum er hrært saman við ásamt möndlum, kanel og sítrónuberki. Marsipanið er saxað í bita og því dreyft yfir ávextina í forminu, síðan er mulningnum jafnað yfir allt saman. Bakað í 45 mín., eða þar til mulningurinn er gylltur og ávextirnir eru mjúkir. Látin standa og jafna sig í 10 mín. Borin fram með eggjakremi, þeyttum rjóma eða ís.