Bananabrauð

Það sem til þarf er:

Í 2 brauð

1+ 2/3 bollar hveiti

1 tsk. lyftiduft

1/2 tsk. matarsódi

1/2 tsk. salt

1 bolli maukaðir, mjög vel þroskaðir, bananar (2-3 venj.)

3 msk. kotasæla

1 tsk. vanilludropar

8 msk. mjúkt smjör

1 bolli dökkur púðursykur

1 stórt egg, við stofuhita

1 bolli ristaðar valhnetur og heslihnetur, gróft saxaðar

Ég var orðin svooo leið á að horfa á bananana í körfunni verða svartari og svartari....  og vissi, að enginn ætlaði að borða þá eins og þeir litu út.  Þá var bara um eitt að ræða...BAKA ÚR ÞEIM :-)  Ég kíkti á uppskrftir á netinu, og datt niður á þessa, á Epicurious sem mér leist rosalega vel á. Ég átti ekki til allt sem var í uppskriftinni og nennti ekki í búðina (of langt, er enn í sveitinni) svo ég notaði í staðinn það sem til var í húsinu (neyðin kennnir...) Ég skipti út sýrða rjómanum sem átti að vera í brauðinu og notaði Kotasælu í staðinn. sem var til og ekki þannig ólík þeim súra =D.  Ég var ánægð með útkomuna, svo mikið að ég borðaði helminginn af öðru brauðinu (gráðug), sjóðheitu úr beint úr, ofninum með miklu köldu smjöri, ALSÆLA ;-)

En, vindum okkur í baksturinn:

Ofninn er hitaður í 180°C.  Grind sett í miðjan ofninn.  2 lítil álform eru smurð vel að innan. Valhneturnar og heslihneturnar eru risitaðar á pönnu og svo grófsaxaðar. Hveiti, lyftiduft, matarsódi og salt er sigtað saman í stóra skál.  Bananarnir, vanilludropar og kotasælan er stappað vel saman í aðra skál.  Sykur og smjör eru sett í hrærivélaskál og hrært létt og ljóst ca. 3 mín. Þá er egginu bætt útí og hrært áfram í ca. 1/2 mín., síðan er hveitinu bætt varlega útí, í 2 skömmtum og að síðustu, bananablöndunni og ristuðu hnetunum.  Deiginu er skipt jafnt á milli formanna.   Bakað í 45-50 mín.  Brauðin eru tekin úr ofninum og kæld á grind áður en þau eru tekin úr formunum.   Geymast í nokkra daga við stofuhita.  Upplagt að frysta.

Verði þér að góðu :-)

Stoppar ekki lengi á disknum  🍌💛