Bakaður rauðlaukur með púðursykri og balsamic
Það sem til þarf er:
F. 6
6 litlir rauðlaukar
3 dl grænmetissoð í fernum
3-4 msk. ristaðar furuhnetur
Púðursykurs- og balsamic gljáinn:
12 msk. balsamic edik
4-5 msk. dökkur púðursykur
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Gott meðlæti er mjög mikilvægur hluti af góðri máltíð. Svo að það sé sagt, þá elska ég lauk og sérstaklega súrsætan rauðlauk! En, í alvöru, þessi er geggjaður og það er hægt að búa þessa útgáfu til daginn áður en á að nota hann, hann er eiginlega betri þannig, bragðið nær betur inn í laukinn og jafnast út, síðan er bara að hita hann upp á deginum, svo þetta liggur inni :-)
Svona geri ég:
Gljáinn: Það er gott að byrja á því að búa gljáann til, svo sykurinn leysist vel upp á meðan laukurinn bakast. Ediki og púðursykri er blandað saman í skál, kryddað til með salti og pipar, sett til hliðar.
Laukurinn: Ofninn er hitaður í 190°C. Rótar endinn er skorinn af lauknum, hann er laukurinn skorinn í tvennt upp frá rótinni og ysta lagið skrælt af. Laukhelmingarnir eru lagðir í eldfast fat með skorna hlutann niður. Grænmetissoðinu er hellt yfir og álpappír settur yfir fatið, því er stungið í ofninn og laukurinn bakaður í 40 mín. Hitinn er hækkaður í 220°C, fatið tekið úr ofninum og álpappírinn tekinn af því og lauknum snúið varlega við, svo skurðurinn snúið upp. Gljáanum er hellt yfir helmingana, síðan er saltað og piprað yfir laukinn. Fatinu er stungið í ofninn aftur í 25-30 mín. og vökvanum í botninum ausið yfir við og við. Þegar laukurinn er meyr og farinn að karamellast á yfirborðinu, er hann tilbúinn. Ef þú ætlar að bera laukinn á borð strax, er furuhnetunum dreift yfir hann. Ef ekki, þá læturðu hann kólna alveg og stingur svo fatinu í ísskápinn, þar til á að hita hann upp næsta dag. Laukurinn er hitaður aftur í 20 mín. á 220°C og þá er gott að ausa gljáanum yfir við og við, síða er furuhnetunum dreift yfir.